19 september 2007

Ekki alltaf að nöldra

Til að lesendur síðunnar haldi ekki að ég nöldri bara og sé óánægður með allt þá langar mig að varpa fram hrósi.
Fór í IKEA í dag og átti þar góða stund. Þangað fór ég til að fjárfesta í pönnu og pressukönnu.
Mér fannst gaman að rölta þennan kílómeter sem hringurinn um verslunina er. Sá fullt af fólki sem ég hafði gaman af að horfa á.
Ég stoppaði síðan á veitingastaðnum, sem er klárlega einn sá besti í bænum miðað við verð. Þegar ég kom að kassanum hafði ég týnt í körfuna (sem var gulur poki í þessu tilfelli) pressukönnu og pönnu eins og til stóð. Að auki var þarna púði í nýja sófann minn, einhver voða flott núðlupanna (það verða allavega eldaðar núðlur á þessari), brauðhnífur og síðast en ekki síst þrjú rauðvínsglös. Mér fannst ekki hægt annað en að eiga rauðvínsglös þegar gestirnir koma með rauðvínsflösku með sér í heimsókn (sem hefur reyndar aldrei gerst og á örugglega ekki eftir að gerast.)

Það þarf ekkert að fylgja sögunni að öll glösin eru ónýt. Hins vegar fær það að fylgja sögunni að ég er einstaklega ánægður með verðlagninguna í IKEA. Ég gekk út sáttur, eins og maður á að gera þegar maður kemur úr verslunarleiðangri. Ekki sár í botninum eins og gerist oft.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli