01 september 2007

Hvað dóu margir í Beslan?

Í dag, fyrst september, eru þrjú ár síðan Tétsneskir hryðjuverkamenn réðust inn í barnaskóla í Beslan og tóku í gíslingu yfir þúsund manns, mest börn. Þetta var fyrsti skóladagurinn að loknu sumarfríi í Rússlandi.

Hryðjuverkamennirnir smöluðu öllum hópnum inn í íþróttasal skólans og röðuðu samtengdum sprengjum í kringum hópinn og fyrir ofan. Meðal annars voru sprengjur í körfuboltakörfum fyrir ofan krakkana.


Ein kenningin um það sem gerðist er að þann þriðja september voru björgunarmenn á leiðinni að skólanum til að taka lík fjölmargra gísla sem hryðjuverkamennirnir höfðu drepið og hent út um gluggana. Í sömu andrá féll sprengja úr annarri körfunni ofan á höfuð ungrar stúlku og sprakk. Enginn vissi hvað var að gerast. Hryðjuverkamennirnir héldu að björgunarmennirnir væru dulbúnir sérsveitarmenn og hófu að skjóta á þá. Rúður brotnuðu, gíslarnir hlupu af stað og flúðu og hryðjuverkamennirnir hófu að skjóta handahófskennt á gíslana.

Svo eru til samsæriskenningar um að Pútín hafi skipað hernum að skjóta á húsið með sprengjuvörpum. Þannig hafi æðið byrjað. Það er m.a. rökstutt með því að eftir að allt var yfirstaðið var eitthvað af heimatilbúnu sprengjunum enn ósprunginn þrátt fyrir að sprengjurnar hafi verið samtengdar.

Þegar allt var yfirstaðið höfðu yfir þrjú hundruð gíslar látið lífið. Þá kem ég að fyrirsögninni.

Þessa dagana hafa fjölmiðlar verið að rifja málið upp í ljósi þess að þrjú ár eru liðin frá atburðunum. Það fer einstaklega mikið í taugarnar á mér hversu tölur látinna eru á reiki.

Mbl segir að 331 hafi látis en Vísir segir þá hafa verið 332. Í morgun var Mbl með enn þá lægri tölu. Á Goggle news eru 68 vísanir í netmiðla sem fjalla um málið. Þar eru fórnalömbin talin vera á bilinu 330 til 334. Á íslensku Wikipediu eru fórnarlömbin talin vera 344. Á þeirri ensku sömuleiðis. Tölurnar af Wikipediu eru sagðar vera opinberar tölur. Með því að fletta í gegnum gagnasafn Mbl og eins með því að skoða gamlar fréttir á Mbl og Vísi fær maður fjöldan allan af tölum. Því hlýtur að vera eðlilegt að ég spyrji hvað dóu margir?

Eru virkilega ekki til neinar staðfestar tölur sem hægt er að styðjast við? Er það ekki hlutverk fjölmiðla að segja rétt frá?

Á Yotube má horfa á fullt af myndbrotum og minningarmyndböndum um atburðina. Þessi heimildarmynd er mjög áhugaverð (hún er í fimm pörtum)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli