27 september 2007

Óþolandi

Eins og ég sagði lesendum frá í júlí fékk ég, án þess að óska sérstaklega eftir því, inngöngu í Tónlistarskóla Eyjafjarðar.
Krafan hljóðaði upp á 11.002 krónur, fyrsta greiðsla af fjórum ef ég man rétt.
Mér þótti þetta voðalega sniðugt þá en þetta er farið að fara virkilega í taugarnar á mér.

Ég beið í nokkrar vikur og hélt í einfeldni minni að starfsfólk skólans myndi leiðrétta þessi mistök. Svo var ekki.
Því næst hringdi ég í skólann, talaði þar við skólastjórann sjálfan og sagði honum hvernig málið stæði. Ég bý í 101 Reykjavík og er því ekki að fara sækja nám í þessum skóla. Hann tók það að sér að leiðrétta þetta og taka þessa kröfu út úr heimabankanum mínum.

Síðan leið og beið og ekkert gerðist nema ég fæ bréf í hverri viku frá Kaupþing þar sem skorað er á mig að borga þessa vitleysu. Og jú gjaldið hækkar í samræmi við það.

Ég sendi bréf til Húsavíkur um daginn, það kostaði einhvern hundrað kall með umslagi. Hvert bréf sem ég fæ frá bankanum kostar rúmlega það.
Nú er gjaldið komið í 15.314 krónur, hvorki meira né minna.

Ég er búinn að hringja í Kaupþing og óska eftir því að krafan verði tekin út. Starfsfólkið þar tjáir mér að það geti ekki tekið þetta út nema að beiðni forsvarsmanna tónlistarskólans. Það má taka það fram að konan sem ég talaði við í bankanum er búinn að vera elskuleg og fylgir bara leikreglum bankans. Hún er búin að senda tölvupósta og reyna að hringja en fær engin svör.

Svona eru bara reglurnar. Það getur hver sem er sett kröfu á mig og ætlast til þess að ég borgi þetta. Ég átta mig alveg á því að ég verð seint neyddur til að borga. Finnst samt asnalegt að ég geti ekki mótmælt kröfum á mig. Það er bara ekki undir mér komið.
Ég get sleppt því að borga kröfuna og horft á hana hækka í heimabankanum. Ofan á þetta þá er ég skráður með vanskil í bankakerfinu fyrir að borga ekki reikningana mína.

Megi starfsfólk Tónlistarskóla Eyjafjarðar fá all rækilega martröð á hverri nóttu uns þetta verður leiðrétt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli