20 september 2007

Ætti ég að segja frá?

Á mánudaginn ákvað ég að fara á Laugardalsvöllinn og horfa á Valsmenn spila gegn ÍA.
Það var skítaveður, kalt og rigning. Ég bjó mér því til mjög öflugt plan sem var c.a. þannig að taka með mér úlpu, húfu og vettlinga, fara í Hagkaup í Skeifunni og kaupa mér síðbrók, fara í sund og klæða mig að því loknuí allt draslið og fara síðan á völlinn.

Þegar ég var í Hagkaupum komst ég að því að tvennt kæmi í veg fyrir að áætlunin stæðist. Ég gleymdi að gera ráð fyrir því að borða og ég lagði of seint af stað. Það var því ljóst að ég þyrfti að fara beint á völlinn eftir að hafa borðað í Hagkaupum.

Þá kom upp annað vandamál. Ég þurfti einhvern veginna að fara úr buxunum og klæða mig í síðbrókina. En hvar?
Tvennt kom til greina. Annars vegar að fara inn á klósett á vellinum og gera þetta þar eða hins vegar að fara í þessa framkvæmd aftur í bílnum!

Ég valdi það síðara. Fann nokkuð afskekkt pláss á bílastæðinu, lagði bílnum og hóf undirbúning.
Þar sem ég er í lengri kantinum og bíllinn minn lítill og nettur sá ég fram á smá baráttu. Aðal málið var þó að enginn myndi koma að mér í miðjum klíðum.

Ég hófst handa. Með buxurnar á gólfinu og síðbrókina á leiðinni upp leggina lagði bíll fyrir aftan mig. Ég tók ekki eftir því strax. Lyfti mér upp og sá þá út um afturrúðuna bílstjórann í hinum bílnum, fjölskyldufaðir á leiðinni á völlinn með alla fjölskylduna.
Þau fóru út úr bílnum og löbbuðu í átt að vellinum, sem þurfti endilega að vera framhjá bílnum mínum. Sitthvoru megin skundaði því fjölskyldan á meðan ég lá í aftursætinu með allt á hælunum og reyndi að láta lítið fyrir mér fara. Þetta var heldur óþægileg tilfinning.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli