28 október 2007

Hugurinn mikilvægari en krafturinn

Var að hlusta á fréttir í bílnum áðan. Þegar kom að íþróttafréttum fór þulurinn að þylja upp úrslit úr glímukeppni. Það fékk mig til að rifja upp glímuferilinn minn. Já ég á glímuferil.

Þannig er mál með vexti að árið '94 eða '95, svona um það bil, fór maður frá Glímusambandinu um landið og kynnti þessa líka göfugu íþrótt fyrir grunnskólakrökkum.
Hann kom í leikfimitíma hjá okkur strákunum, kynnti þetta fyrir okkur. Kenndi okkur reglurnar og sýndi okkur dansinn.
Því næst var haldin keppni. Sá sem stæði uppi sem sigurvegari í '80 árganginum átti að keppa fyrir hönd skólans á Laugamótinu svokallaða.
Ég var aldrei mjög stór þegar ég var í grunnskóla, var heldur ekkert peð heldur bara miðlungs maður. Þarna voru hins vegar stórir og öflugir menn sem ég sá að yrðu erfiðir viðureignar.

Ég fór í gegnum fyrstu glímurnar nokkuð auðveldlega. Mönnum var farið að fækka verulega og einungis fjórir eftir. Hinir þrír voru töluvert stærri, þyngri og sterkari en ég.
Nú voru góð ráð dýr.
Til að gera langa sögu stutta þá sigraði ég. Ég sá að kraftar mínir voru ekki gagnlegir í þessu tilfelli. Ég þurfti að beita einhverja öðru.
Við vorum allir í stuttbuxum og bol. Það var einmitt lausnin. Þegar ég glímdi við þessa durga þá greip ég einfaldlega í buxnastrenginn hjá þeim og togaði stuttbuxurnar eins langt upp og ég gat. Það olli strákunum miklum óþægindum. Í raun svo miklum að þetta sló þá alveg út af laginu og átti ég ekki erfitt með að vippa þeim í gólfið þegar eistun voru komin hálfa leið upp í maga.

Myndin er fengin að láni frá museum.is

Engin ummæli:

Skrifa ummæli