25 október 2007

Þvagleggur

Nú stendur til að skipa hóp sem á að fjalla um hvernig lögreglan á að bera sig að neiti fólk að gefa þvagprufu leiki grunur á akstri undir áhrifum áfengis og/eða lyfja.

Eins og flestir vita snýst þetta um konu sem var full að keyra í umdæmi lögreglunnar í Árnessýslu. Lögreglan tók hana, hún neitaði að pissa í glas, hótaði að drepa lögreglumennina og fjölskyldur þeirra og að lokum var tekin þvagprufa úr henni með valdi.
Konan kærði og sagði að sé hefði liðið svo illa síðan þetta gerðist. Alveg niðurbrotin. Með öðrum orðum ekki jafn brött og þegar hún hótaði lögreglunni öllu illu.

Hvað haldið þið að það þurfi margir að sitja í þessari nefnd? Hversu marga fundi þarf? Hvað á þetta eftir að kosta?

Er þetta virkilega svona flókið mál? Nú hlýtur það að segja sig sjálft að það getur varla verið æskilegt að þræða rör upp í þvagrás fólks gegn þeirra vilja. En hvað er þá til ráða?

Hlýtur það ekki að segja sig sjálft að annað hvort þarf að halda áfram að þröngva rörinu upp eða þá hreinlega að refsa fólki neiti það að taka þátt? Hvernig væri til dæmis að menn misstu prófið í heilt ár neituðu þeir að pissa í glasið?
Myndin er fengin úr upplýsingabæklingi Landspítalans um þvagleggi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli