20 nóvember 2007

Lokaorð um tónlistarskólann

Sagan um tónlistarskólann er öll. Síðdegis í gær var krafan (þá orðin komin vel yfir 23 þúsund krónur) horfin úr heimabankanum.
Ég á þó enn eftir að ganga úr skugga um að krafan sé ekki farin út vegna þess að hún sé komin til sýslumanns með kröfu um fjárnám.

Vegna mikils annríkis í hinum skólanum mínum komst ég ekki í neinar stórtækar aðgerðir. Ég lét það duga að senda þeim, í póstkröfu, gamalt beljuhræ smitað af miltisbrandi. Með hræinu fylgdi bréf með útklipptum stöfum úr dagblaði þar sem ég krafðist þess að krafan yrði felld niður.

Á dögunum tjáð mér vitrari manneskja (já hún er til) að það versta sem ég gæti gert væri að aðhafast ekki neitt. Það væri fullt af fólki sem myndi lenda í því á hverju ári að fá kröfu sem það kannaðist ekki við og/eða hyggðist ekki borga. Hluti af þessu sama fólki lenti síðan í fjárnámsbeiðni sýslumanns. Þar sem fólkið hafði aldrei borið gegn kröfunni var það bara dæmt til að greiða kröfuna með öllum kostnaði. Eflaust getur fólkið farið með málið fyrir dómstóla og vesenast þar í nokkur ár með tilheyrandi kostnaði.

Málið er því vonandi dautt. Engu að síður er ég alvarlega að íhuga að senda bréf sem ég skrifaði til Morgunblaðsins eða Fréttablaðsins og óska eftir birtingu. Þetta getur hreinlega ekki verið sanngjörn staða fyrir fólkið í landinu að hver sem er geti sent hverjum sem er kröfu fyrir hvað sem er. Eigandi kröfunnar getur að lokum farið með hana alla leið til sýslumanns. Þá fyrst hefur fólk möguleika á að fá kröfuna fellda niður...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli