12 desember 2007

Enginn dans á rósum

Ég hreinlega nenni ekki að tjá mig um femínista eða eitthvað álíka sem getur gert alla menn brjálaða. Ætla því að skjóta inn gamalli færslu sem ég skrifaði í janúar 2006. Skólagangan hefur sko ekki verið neinn dans á rósum eins og sést í þessari færslu.
------------------------------------------------------------------------------------
Frekar vandræðalegt...
...atvik sem ég lenti í í morgun.

Þannig er mál með vexti að ég var að fara í gríðarlega skemmtilegan Haglýsingar tíma kl 8:15 í morgun. Ég lagði af stað kl 7:45 og var kominn upp í skóla kl 8:40 eftir að hafa bölvað fullt af ökumönnum í sand og ösku fyrir að keyra eins og kellingar. Þó er ég sjálfur á sumardekkjum.
Í gærkvöldi hafði ég litið yfir stundarskrána og séð að ég var að fara í O-301 sem er stofa nr 301 í Odda. Ég rýk þangað og æði inn í stofu.
Þetta er nokkuð stór stofa og var mjög þétt setin. Mikið af fólki hugsaði ég með mér. Sá að það var laust þarna aftast, inn á milli einhverra. Einhverstaðar verður maður að sitja hugsaði ég og gekk af stað. Skórnir mínir voru blautir og það ískraði alveg heil ósköp í þeim þegar ég labbaði í gegnum alla stofuna. Fullt af látum og veseni þegar ég var að troða mér inn á milli einhvers fólks, í stóru úlpunni minni með skólatöskuna á bakinu.
Djöfull er leiðinlegt að koma svona seint hugsaði ég. Þetta hafðist og ég settist niður og fór, svona eins og maður gerir, að líta í kringum mig. Byrjaði auðvitað á þeim sem sátu við hliðina á mér. Aldrei séð þær áður.
Víkkaði sjóndeildarhringinn. Aldrei séð þetta fólk áður. Alveg sama hvert ég leit. Aldrei séð þau áður. Mikið af nýju fólki hugsaði ég. Kannski er svona mikið af fólki af öðru ári.
Ég hélt áfram að horfa í kringum mig. Mikið af gellum hérna hugsaði ég. Þá allt í einu sá ég að það var ekki bara mikið af gellum, heldur bara kvenfólk. Ég sem sagt eini strákurinn. Þá runnu á mig tvær grímur. Þetta gat nú ekki staðist. Allt í einu heyrði ég út undan mér að kennarinn var að tala eitthvað um námsefnið. Hafði alveg farið fram hjá mér til þessa. Allt í einu kom setningin "þið verðið að læra þetta til að verða gott félagsvísindafólk". Ég veit reyndar ekki af hverju hún sagði fólk ekki bara félagsvísindastelpur.
Jæja þá var svo komið að ég var aftast og nánast innst inni í kennslustofu í einhverjum kúrs sem ég hafði ekkert erindi í. Ég velti því fyrir mér í smá stund hvort ég ætti að reyna að halda kúlinu og bara taka upp bók og fara að glósa. Fannst það ekki mjög freistandi.
Það varð úr að ég rís á fætur og byrja að troðast sömu leið til baka. Að sjálfsögðu er fullt af hávaða og látum við svona tilstand, að auki var enn þá ískur í skónum mínum. Allar stelpurnar í stofunni horfðu á mig. Sumar þurftu meir að segja að snúa sér í 180° til að sjá hver þetta væri. Meir að segja kennarinn hætti að tala. Grafarþögn, fyrir utan ískrið í skónum, þegar ég gekk þessa kílómetra (í minningunni allavega) út úr stofunni.
Á leiðinni hugsaði ég (fyrir utan það að svona hlyti kúk að líða) ætti ég að reyna að segja eitthvað svalt? Sem betur fer gerði ég það ekki, efast um að það sé hægt að segja eitthvað svalt í svona aðstöðu.
Ég heyrði það ekki en alveg er ég viss um að það hafi verið hlegið inni stofunni þegar hurðin lokaðist á eftir mér. Ég er líka viss um það að ef ég myndi kíkja á djammið um næstu helgi að ég myndi pott þétt hitta einhverja stelpu sem myndi segja "varst það ekki þú sem komst inn í félags-eitthvað tíma í Odda þarna um daginn?"

------------------------------------------------------------------------------------
Upprunalega færslan.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli