15 desember 2007

Ég verð líka að tjá mig um þetta

Íslenskt stelpa, Erla Ósk, fékk heldur betur óblíða móttöku við komuna til bandaríkjahrepps á dögunum. Hún hafði víst dvalið þremur vikum lengur en hún mátti dveljast árið 1995. Þá, eins og nú, mátti hún dveljast í hreppnum í 90 daga en þeir fóru greinilega yfir eitthundrað miðað við mína útreikninga.

Allavega þá var henni haldið fanginni við slæma vist þar til hún var leidd í járnum langleiðina út í flugvél og send til baka. Mér skilst að hún hafi verið kvödd með þeim orðum að nú væri málið leyst og hún væri velkomin aftur í hreppinn.


Í kjölfarið af bloggi Erlu tóku fjölmiðlar við sér og gott ef utanríkisráðherra hefur ekki tjáð sig um þetta. Síðast en ekki fjöldi bloggara. Morgunblaðið sá meir að segja ástæðu til að flytja sérstaka frétt með fyrirsögninni tæplega 300 athugasemdir við bloggfærslu. (Hef ekki orðið var við fleiri fréttir um fjölda athugasemda hjá Mogganum en þær eru orðnar tæplega 500 ef fréttaritari Morgunblaðsins á leið um þetta blogg!)

Það er tvennt sem mig langar að segja um þetta mál.
Annars vegar það að það virðist réttilega vekja mikla athygli í þessu máli að hún hafi verið handjárnuð og sett í fangaklefa og eitthvað álíka.
Málið er bara, sama hvort fólki líkar betur eða verr, þá er þetta bara svona í hreppnum. Menn eru handjárnaðir punktur. Hvort það sé 12 ára barn sem teiknaði mynd af araba í skólanum eða saklaus og sæt stelpa frá Íslandi. Hitt er svo annað mál hvort þetta sé eðlilegt að gera þetta svona.

Hitt málið snýst um mannréttindi. Hef séð mikið af athugasemdum frá hinum og þessum sem segja að mannréttindi Erlu hafi verið brotið og eitthvað slíkt.
Það vill jú þannig til hreppurinn er ekki aðili að mannréttindasáttmála SÞ. Það hlýtur því að breyta því hvernig mannréttindi eru skilgreind þarna fyrir vestan. Eitthvað sem teljast mannréttindi hérna á Fróni eru ekki endilega mannréttindi þar sé litið til lagabókstafsins.
Auðvitað segir almenn skynsemi okkur að þetta sé gróft brot á réttindum manneskjunnar, hún fékk ekki að borða, ekki að hringja og var víst farið með hana eins og hryðjuverkamann sem er einmitt lykilorðið.

Staðan í hreppnum í dag er þannig að öllu hefur verið fórnað í baráttunni gegn hryðjuverkum. Svigrúm hinna og þessara stofnana hefur verið aukið svo mikið að þessar sömu stofnanir geta nánast hagað sér að vild. Lögin vernda ekki fólkið.

Þessi lífsreynsla Erlu Óskar er ágætis áminning um ýmsar vafasamar starfsaðferðir þarna vestra. Ekki er hægt að sleppa því að minnast á fangana í Guantanamo. Margir hverjir hafa þurft að dúsa þar í nokkur ár. Saklausir menn.
Mæli með lestri bóka um þetta illræmda fangelsi. Til dæmis Guantanamo - herferð gegn mannréttindum eftir David Rose.

Sögu hennar Erlu Óskar má lesa hérna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli