07 janúar 2008

Bundinn niður með límbandi

Klámvæðingin tröllríður landanum. Fremst meðal jafningja fer starfsfólk Kastljóss með sitt tilfinningaklám. Hver einasti þáttur er uppfullur af tilfinningaklámi.
Það nýjasta er fólk sem var bundið niður með límbandi á einhverjum unglingaheimilum fyrir hundrað árum síðan!

Nú var ég þægt og gott barn... svona oftast nær. Það kom fyrir að ég hagaði mér ekki í samræmi við hin kristilegu gildi sem jesúítarnir hamra svo mikið á þessa dagana. Kannski ekki furða þar sem ég vissi mjög snemma að Guð væri ekki til. Það er samt önnur saga.Eitt skiptið sem ég virti ekki kristilegu gildin sem giltu á Ungabæ (leikskólanum á Húsavík, man samt ekki hvort það var sú deild eða einhver önnur þegar þetta gerðist) skilst mér að ég hafi verið límdur niður í stól með límbandi.
Þó vil ég taka það fram að ég man ekki eftir þessu. Hef þó heyrt þetta frá samferðamönnum mínum. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Nú myndu vandamálasérfræðingar segja að ástæðan fyrir því að ég myndi ekki eftir þessu væri sú að undirsjálfið hefði lokað þessa slæmu minningu niðri. Og þetta væri ástæðan fyrir því að ég er eins og ég er. Fæ martraðir, pissa undir, á erfitt með að tengjast öðru fólki tilfinningaböndum og svo framvegis.
Ég myndi að sjálfsögðu aldrei viðurkenna að ég pissaði undir og ætti erfitt með að tengjast tilfinningaböndum en þá myndu vandamálasérfræðingarnir benda mér á að þetta væri enn eitt einkennið. Að vilja ekki viðurkenna hlutina.
Eða með öðrum orðum aðstoða mig við að verða fórnarlamb. Því ég hef allt sem þarf (nema að ég pissa ekki undir!).

Nú óska ég eftir einhverjum sem telur sig muna eftir þessum atburði. Það væri ágætt að fá það í kommentakerfið. Næsta skref verður síðan væntanlega að setjast við samningaborðið með fulltrúum Norðurþings og athuga hversu háar skaðabætur þeir eru tilbúnir að borga. Það gengur jú ekki að vera endalaust að pissa undir...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli