03 janúar 2008

Þegar ég dó næstum því

Ég vil byrja á að þakka lesendum nær og fjær fyrir árið sem var að líða og óska öllum velfarnaðar á nýju ári. Það verður væntanlega jafn fljótt að líða og það síðasta. Það þýðir að það er alveg að koma sumar og ekki nóg með það heldur það er alveg að koma haust líka!

En allavega þá fór ég í smá partý á laugardaginn fyrir áramót. Eftir partýið var haldið í bæinn þar sem allir skemmtu sér vel. Þegar leið undir morgun ákvað ég að koma mér heim.
Ég rölti niður Laugarveginn og kom við í Hlöllavagninum á leiðinni í leigubílaröðina eins og ég geri alltaf. Því næst rölti ég með bátinn minn að röðinni, var þá þegar orðinn blautur sökum óeðlilega mikillar rigningar og hvassviðris. Röðin var heldur löng og sá ég því fram á að það tæki jafn langan tíma að bíða í röð og að rölta bara heim. Það var nú gáfuleg hugmynd!

Af stað ég fór, en eftir c.a. 150 metra ákvað ég að leita skjóls borða þennan helvítis bát sem ég hafði keypt. Fann eitthvað skot þar sem ég hírðist eins og útigangsmaður út í horni þar sem rigningin náði ekki til mín.
Næst var að rölta heim. Þetta er nú yfirleitt ekki löng leið en djöfull var hún löng í þetta skiptið. Hvað eftir annað óð ég polla sem náðu mér upp á leggi. Gaman að segja frá því að ég var í sparifötum og spariskóm.
Þegar ég var að labba göngubrúna yfir Nýju Hringbraut var ég kominn með kuldasting í höfuðið, heilinn að ofkólna. Tók því trefilinn minn og vafði um höfuðið eins og túrban.
Stysta leiðin heim er að labba hjá Öskju og bakvið Íslenska Erfðagreiningu.
Þegar þar var komið var ég orðinn blautur í gegn allstaðar og að deyja úr kulda og vosbúð í bókstaflegri merkingu. Ég óð polla og gekk í slabbi til skiptis.
Á þessum tímapunkti kom það í huga minn að gefast hreinlega upp. Ég var orðinn viss um að ég næði aldrei heim. Spurningin var hvort ég ætti að eyða síðustu kröftunum í að senda öllum nánustu sms og kveðja!
En þá kom lífsbjörgin. Ég sá nýleg spor eftir tvær manneskjur. Önnur sporin voru greinilega eftir háa hæla !!! Þá hugsaði ég með mér að ef einhver stelpa hefði haft það af að ganga þessa leið á háum hælum þá kæmi ekki til greina að ég gæfist upp. Ég tala nú ekki um þar sem dömur á háum hælum eru sjaldnast kappklæddar.Við þetta öðlaðist ég aukinn þrótt, blótaði stjórnvöldum hressilega fyrir að takmarka fjölda leigubíla í höfuðborginni og hljóp af stað og lifði það af.

Af þessari sögu getur maður lært að það er alveg sama hversu slæmt maður hefur það. það er alltaf einhver sem hefur það verra...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli