15 janúar 2008

Pólitískar ráðningar

Síðustu vikur hafa umræður um pólitískar ráðningar farið hátt. Össur með tvær umdeildar ráðningar og Árni Mathiesen með eina.

Árni réði Þorstein Davíðsson Oddsson sem dómara við héraðsdóma norðurlands eystra. Sérstök matsnefnd hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að þrír aðrir umsækjendur væru hæfari en Þorsteinn. En það sem Þorsteinn hafði framyfir hina umsækjendurna var að hann er ágætur íslenskumaður og situr í dómnefnd Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar!

Mogginn, sjallarnir og frjálshyggjupakkið leggja sig í líma við að verja ráðninguna. Segja að þetta sé sko barasta alls ekkert ólöglegt. Auðvitað eigi ráðherrann að ráða þann sem hann telji hæfastan. Það þurfi því ekkert að ræða þetta meir.
Í málgagninu hafa birst nokkrir leiðarar þar sem reynt er að breiða yfir ráðninguna og færa rök fyrir henni.

Best af öllu þykir mér þegar talað er um að Þorsteinn eigi ekki að gjalda fyrir það að vera sonur Davíðs Oddssonar. Sem er út úr snúningur af verstu gerð. Málið er að hann er að njóta þess að vera sonur Davíðs. Hann hefði aldrei fengið þessa stöðu ef hann hefði verið sonur blikksmiðs í Njarðvík. Þá hefði hann reyndar heldur ekki fengið stöðuna sem aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar. Reynslan úr því starfi er helsti rökstuðningur fyrir ráðningu hans.

Að lokum þá má ekki gleyma því að Össur Skarp. hefur hálfpartinn tekið upp hanskann fyrir Árna og sjallana. Það segir okkur enn og aftur að þetta er allt saman sami skíturinn. Það fer eftir því hvoru megin við borðið menn sitja þegar kemur að því að tjá sig.
Það hefði heyrst manna mest í Össuri fyrir eins og ári síðan. Þá hefði hann úthrópað ríkisstjórnina og Framsókn hefði staðið í bullandi vörn. En það urðu hlutverkaskipti í vor...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli