14 febrúar 2008

Aðeins meira tuð um fjölmiðla

Fyrst ég er byrjaður að tuða um fjölmiðla er eitt í viðbót sem ég verð hreinlega að fá útrás fyrir.
Áður en að því kemur langar mig að lýsa því yfir að ég er alls enginn sérfræðingur í íslenskri tungu. Var hreint slakur í málfræði í skóla og lærði aldrei neinar málfræðireglur í skóla. Reyndar með þeirri undantekningu að ég lærði að segja minn og mín eftir orðum til að greina hvort þau væru karlkyns eða kvenkyns. Svo lærði ég að nota orðið hestur ef ég var ekki viss með fallbeyginguna. Það er allt og sumt. Ég hef til dæmis ekki minnstu hugmynd um hvað er frumlag, atviksliður og viðtengingarháttur.

Með aldrinum fór ég að fá meiri áhuga fyrir því að tala og skrifa svona nokkuð rétt. Er enginn íslensku fasisti en geri lágmarks kröfur. Ég get alveg horft framhjá málfræðinni þegar ég les blogg hjá einhverju fólki. Ég geri samt meiri kröfur til fjölmiðla.

Verst af þessu öllu er að ég er oft ekki 100% viss um að hafa rétt fyrir mér því ég kann ekki reglunar sem segja að þetta eigi að vera svona og hitt að vera hinsegin.

Allavega þannig að ég komi mér að efninu þá fer það óskaplega í taugarnar á mér þegar fjölmiðlar nota nútíð um atburði sem eru liðnir.
  • Í 24 stundum stóð "Rihanna lendir í árekstri" og sagt frá því að söngkonan hafi lent í árekstri fyrir nokkrum dögum síðan.
  • X margir látast í sjálfsmorðssprengjuárás. Þetta sér maður stundum, gjarnan hjá Rúv. Alltaf finnst mér þetta jafn óþolandi. Hvenær látast þeir? Jú þegar maður les fréttina sér maður að þeir létust fyrir nokkrum dögum.
  • Tugir látast í Íran af völdum veðurs. Hvenær látast þeir? Jú síðustu daga hafði snjóað mikið og margir látist.

P.s. það er bannað að benda á einhverja málfarsvillu í þessu bloggi. Klukkan er margt þegar þetta er skrifað og í þokkabót er þetta blogg. Ekki fjölmiðill!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli