07 febrúar 2008

Enginn ber ábyrgð í borginni

Þá er það ljóst, eftir Kastljósið í kvöld, að enginn kemur til með að bera ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut hjá borginni í REI málinu.

Það er þverpólitísk samstaða um að þegja málið í hel. Í skýrslunni kemur ýmislegt fram en þó ekki neitt. Næsta skref er síðan að láta nýju stjórnina fjalla um gömlu stjórnina.

Það sjá allir að það er ekki heil brú í þessum málflutningi. Það er bara verið að drepa málinu á dreif. Enda er það nánast einsdæmi að íslenskir stjórnmálamenn hafi borið ábyrgð á axarsköftum sínum.

Ljósi punkturinn í dag var dómur Hæstaréttar í máli Reykjavíkurborgar gegn olíufélögunum. Vonandi fylgir holskefla sveitafélaga í kjölfarið og fer í mál við olíufélögin. Sem og ríkið.

Skyldu Björn Bjarna og dómsmálaráðuneytið fara alla leið?

Viðbót kl. 23:40
Ég hreinlega gleymdi að minnast á Svandísi í Kastljósinu. Mér fannst hún standa sig mjög illa og mér fannst Sigmar óvenju góður í kvöld.
Það er alveg ljóst að það er eitthvað sem verið er að fela. Það hreinlega getur ekki annað verið þegar manneskja eins og Svandís sem gekk sem harðast fram í þessu máli hefur snúist svona í andstöðu sinni. Hún lætur eins og um tæknileg mistök hafi verið að ræða!

Ég skal líka hundur heita ef það er rétt sem Svandís sagði í Kastljósinu þegar hún sagði "við töluðum aldrei um að draga menn til ábyrgðar".
Ég ætla ekki að fullyrða að manneskjan sé að segja ósatt. En ég er miklu meira en viss um að ég hafi heyrt því fleygt að einhver yrði dreginn til ábyrgðar. Gott ef það var ekki Svandís.
Ég treysti Sigmari til að renna í gegnum fréttir og viðtöl frá þeim tíma þegar málið fór sem hæst og finna þessi ummæli (eða finna þau ekki). Eins grunar mig að hann leyfi okkur að sjá/heyra misræmi í orðum Villa á milli daga, leyfa okkur að dæma um hvort það sé verið að snúa út úr ummælum hans.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli