26 febrúar 2008

Ógildur úrslitaleikur

Eins og alþjóð veit urðum við Valsmenn Íslandsmeistarar í innanhúsknattspyrnu (Futsal) fyrir skömmu. Alþjóð veit sjálfsagt líka að við unnum eyjapeyja örugglega í úrslitaleiknum með sjö mörkum gegn þremur.
Eyjamenn unnu Víði úr Garði í framlengdum leik. Leik sem rennur seint úr minni þeirra sem urðu vitni að þeim skrípaleik sem átti sér þar stað.
Þegar svolítið var liðið á framlenginguna hafði í það minnsta einn leikmanna Víðis fengið rautt spjald fyrir glórulausa hegðun á vellinum. Annar hafði verið sendur af bekknum fyrir að rífa kjaft við dómarana. Þá var komið að þjálfara Víðis. Hann fékk rautt fyrir orðbragð sem ekki er hægt að hafa eftir á svona heiðviðri bloggsíðu.


Hann færði sig aftur um eina 3-4 metra og stóð þar og hélt áfram að bölva og ragna. Það kom að því að allt fór í háaloft. Dómararnir dæmdu eitthvað sem hugnaðist Víðismönnum illa. Í kjölfarið tók þjálfari þeirra tryllinginn. Gekk inn á leikvöllinn og hóaði í sína að menn að koma sér inn í búningsklefa. Þarna voru nokkrar mínútur eftir að framlengingunni.
Þegar einn Víðismaður var eftir á vellinum, gat ekki betur séð en að hann væri sá eini í liðinu sem sá hversu afleit hugmynd þetta var, kom einhver starfsmaður KSÍ hlaupandi að þjálfaranum og reyndi að telja honum hughvarf. Þeir létu segjast á endanum, komu aftur til leiks og töpuðu örugglega.
Eftir því sem ég kemst næst hafði þessi skrípaleikur enga eftirmála. Kannski er þetta ekki nógu virt mót til þess að KSÍ nenni að bregðast við svona hegðan.
Annað sem gerðist var það að upp komst að einn leikmanna ÍBV hafði ekki leikheimild, Víðismenn kærðu og var dæmdur sigur 3-0.

Sagan segir að það þurfi að spila úrslitaleikinn aftur. Valur-Víðir.
Er hægt að svipta lið titlinum bara sisvona? Þarf ég að skila gullmedalíunni sem ég fékk? En ef ég verð búinn að selja hana á Ebay?

Það eru greinilega margar spurningar sem krefjast svars...

Engin ummæli:

Skrifa ummæli