06 febrúar 2008

Hvalfjarðargöng - ekki einkaframkvæmd

Fjölmiðlar fjölluðu í gær og í dag um karlmann (óþarfi að taka kynið fram?) sem keyrði 40 sinnum í gegnum Hvalfjarðargöngin án þess að borga. Maðurinn hefur verið kærður fyrir fjárstuld og til vara nytjastuld. Það verður fróðlegt að sjá hvernig dómstólar taka á þessu máli.

Langaði annars að benda á misskilning sem virðist gæta varðandi þessi göng.

Hægrimenn og frjálshyggjuliðið nota gjarnan Hvalfjarðargöngin sem dæmi um vel heppnaða einkaframkvæmd samgöngumannvirkja. Nota þetta verk sem rök fyrir því að ríkið þurfi ekki endilega að vasast í svona framkvæmdum. Einkaaðilar geta séð um þetta svo vel sé.

Hvalfjarðargöng eru ekki dæmi um einkaframkvæmd. Allavega ekki í venjulegum skilningi þess orðs.

Fyrirtækið Spölur hf. sem stóð að gerð ganganna var stofnað í janúar 1991. Sex hluthafar eiga 87,7% í fyrirtækinu en þeir eru:

  • Faxaflóahafnir (upphaflega Grundartangahöfn)
  • Sementsverksmiðjan hf. (ríkið seldi 2003)
  • Íslenska járnblendifélagið hf. (ríkið seldi 2002)
  • Hvalfjarðarsveit (upphaflega Skilmannahreppur)
  • Vegagerðin
  • Akranesbær
Sem sagt ríkið og sveitafélögin stóðu að og eiga tæplega 88% hlut í Speli með beinum og óbeinum hætti. Restin er í eigu ýmissa félaga, fyrirtækja og einstaklinga.

Ríkið lagði og borgaði veginn að göngunum, felldi niður vsk. og veitti lán svo eitthvað sé nefnt.

Það má þó ekki draga úr því að verktakinn sem vann verkið tók á sig stóran hluta af ábyrgðinni. Með lánum sem voru ekki með ríkisábyrgð.

Punkturinn er því þessi að verkið var ekki einkaframkvæmd frekar en það var ríkisframkvæmd. Þetta var einhver blanda af þessu tvennu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli