29 febrúar 2008

Sannleikurinn framhald

Í kjölfarið af síðustu færslu rifjaðist upp fyrir mér hvaða afleiðingar það getur haft að segja sannleikann. Það má reyndar hafa það í huga að það er alls ekki skoðun mín að í þessu máli sem ég skrifaði um hafi verið um einhvern sannleika að ræða. Heldur hafa dómar verið að falla undanfarna mánuði þar sem það skiptir ekki öllu máli hvort sannleikurinn hafi verið sagður heldur skiptir meira máli að særa ekki persónu fólks.
Þarna togast á tveir pólar. Má satt kyrrt liggja eða er sannleikurinn sagna bestur?

Ég var útvarpsmaður á Húsavík um árið. Ætli það hafi ekki verið í kringum '98-'99 (edit) sem þátturinn Sojakurl var á hátindinum. Við félagarnir vorum með skúbb-horn sem gekk út á að segja frá hinu þessu sem hafði gerst á djamminu um liðna helgi.
Við sögðum ótrúlega mikið af sönnum sögum sem voru misjafnlega grófar. Eflaust höfum við örugglega sagt einhverjar ósannar líka þar sem við treystum að mestu leyti á heimildarmenn. Okkur var þó mikið í mun að leiðrétta það sem rangt var og vissi fólk sem svo að við værum til í að leiðrétta það sem ósatt var.

Allavega þá gerðist það eitt skiptið að við sögðum alveg sanna sögu sem við höfðum frá fyrstu hendi. Ekki einn heldur margir heimildarmenn og lögðum við mikla vinnu í að staðfesta söguna. Viti menn hún var dagsönn og fór í loftið.
Í örfáum orðum þá var sagan á þá leið að eldri maður á Húsavík, sem var einhleypur og barnlaus, hafði stundað það um tíma að kaupa áfengi fyrir stráka í grunnskólanum. Ekki nóg með að hann keypti stundum fyrir þá áfengi heldur borgaði hann það stundum fyrir þá líka.
Og hvað vildi hann fá í staðinn? Jú hann vildi fá koss frá strákunum og jafnvel fá að kyssa þá aðeins.
Við sögðum frá þessu í beinni eftir að fleiri en fjórir strákar höfðu staðfest þetta við okkur. Á einhvern óskiljanlegan hátt hringdu foreldrar sem höfðu heyrt þáttinn (líklegast að reyna að heyra eitthvað misjafnt um börnin sín) í skólameistarann og kvörtuðu. Ekki yfir fullorðnum manni sem var að dansa á línunni heldur yfir okkur útvarpsmönnunum. Að launum vorum við reknir með skömm úr útvarpinu og gott ef ekki tímabundið úr skólanum líka.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli