25 febrúar 2008

Stiklur

Meðal þess sem síðustu dagar hafa borið í skauti sér má nefna:
  • Birkir Jón framsóknarmaður spilaði póker og 21. Ekki einu sinni heldur tvisvar og græddi nokkra þúsundkalla. Að það skuli vera umræða um þetta segir okkur að það er nóg annað að gera á Alþingi en að ræða um bleika og bláa samfestinga og hvort ráðherra sé ráðherfa.
  • Eitthvað lag vann júróvisjón keppnina. Söngvarinn fór í kjölfarið rangt með einhvern málshátt og gerði allt vitlaust. Þó ekki af því hann fór rangt með málsháttinn!
    Sá einhverstaðar að lagið sem vann hafi fengið 50 þúsund atkvæði, lag númer tvö fékk 23 þúsund atkvæði. Samt hefur umræðan að mér finnst aðallega snúist um það að lagið hafi verið lélegt og ekki átt skilið að vinna. Er þetta enn eitt dæmið um háværa minnihlutann?
  • Ég ætla að verða fyrstur til að spá því að Grímseyjarferjan Sæfari sökkvi innan tveggja ára. Það hefur allt farið úrskeiðis sem getur farið úrskeiðis með þessa ferju. Það væri því til að toppa þetta að ferjan myndi sökkva í rólegheitunum. Að sjálfsögðu bjargast allir.
  • Villi fyrrverandi borgarstjóri lýsti því yfir, í sinni sjöundu fréttatilkynningu, að hann væri ekki búinn að ákveða neitt enn þá. Sama óvissuástandið mun því ríkja í borginni væntanlega einhverja mánuði til viðbótar. Ólafur Friðrik er mjög rólegur yfir þessu öllu saman. Flugvöllurinn fer ekkert á þessu kjörtímabili og þá er hann sáttur.
  • Svo má ekki gleyma frægri bloggfærslu iðnaðarráðherra um Gísla Baldursson júrívisjón kynni. Þar líkti ráðherran sjónvarpsmanninum meðal annars við dautt hross. Hægri menn brugðust hinir verstu við og kepptust við að lýsa vanþóknun sinni á færslu ráðherrans. Vinstri menn mölduðu í móinn og sögðu að þetta væri bara ritstíll ráðherrans. Við því væri ekkert að gera. Svona svipað og hægri menn telja sér skylt að úthúða Fidel Castro sem er að fara frá völdum og saka vinstri menn um að elska hann og hans verk.
    Það vita jú allir að pólitík er bara eins og hópíþrótt. Maður verður að standa með sínum mönnum sama hvort maður sé sammála eða ósammála.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli