02 mars 2008

Google Reader - svo mikil snilld

Ég hef áður bloggað um hvílík snilld Google Reader er. Ég ætla samt að gera það aftur því það eru allt of margir sem vita ekki um hvað svona bloggsafnari snýst.

Í stuttu máli virkar þetta þannig að maður skráir öll þau blogg sem maður hefur áhuga á að lesa og safnar öllum færslunum á eina síðu. Inn í bloggsafnaranum les maður síðan allar færslurnar og losnar við að flakka um og athuga hverjir eru búnir að skrifa síðan maður kíkti á síðuna þeirra síðast. Sparar geipilega mikinn tíma. Tæknilegu hliðina nenni ég ekki að skýra því það skiptir engu máli á meðan þetta virkar.

Allt sem þið þurfið er að hafa notendanafn og lykilorð hjá Google. Til dæmis ef þið eruð með Gmail. Annars bara að stofna reikning hjá Google. Kostar ekki neitt og dugar til að nota allar þessar frábæru lausnir sem Google býður upp á.
Þið farið hreinlega á Reader síðuna og skráið ykkur inn. Eftir það eigið þið ykkar eigin bloggsafnara.

Á fyrstu myndinni (smella á hana til að sjá hana stærri) má sjá forsíðuna á Google Reader eins og hún blasir við mér þegar ég skrái mig inn. Ofarlega til vinstri sést að mín bíða 35 nýjar færslur. Þar fyrir neðan sést feitletrað hvaða bloggarar hafa skrifað síðan síðast og innan sviga hversu margar ólesnar færslur eru til staðar á hverju bloggi.
Til að bæta við nýju bloggi vel ég einfaldlega "Add subscription" og slæ inn slóðina á blogginu. Flóknara er það ekki.


Á næstu mynd má sjá að ég hef valið bloggið hans Pálmars. Ég vel nafnið hans til vinstri og þá birtast færslurnar. Þegar ég smelli einu sinni á færsluna hægra megin hættir bloggið að vera feitletrað og sýnir að ég eigi ekkert ólesið blogg hjá Pálmari. Vilji ég leggja inn athugasemd við færsluna smelli ég einfaldlega á fyrirsögnina og þá opnast færslan á blogginu sjálfu í nýjum glugga.

Á þriðju myndinni hef ég valið "manage subscriptions" þar sem nafnið segir sig eiginlega sjálft.
Einn "galli" við bloggsafnarann er að þegar maður bætir við nýju bloggi birtist það undir þeirri fyrirsögn sem bloggið hefur. Mjög margir bloggarar hafa einhverja fyrirsögn á blogginu sínu sem maður tengir ekki endilega við þann sem bloggar. Fyrirsögnin á mínu bloggi er t.d. Andri segir sannleikann. Það myndi eflaust duga til þess að menn áttuðu sig á því hver er að blogga. Eins og sést á myndinni hefur eitt bloggið fyrirsögnina As I See It sem gefur kannski ekki jafn glögga mynd hver er að blogga.
Ég fer því yfirleitt í stillingarnar og breyti nafninu yfir í þann sem skrifar bloggið. Þá fer þetta ekkert á milli mála. Á t.d. eftir að breyta As I See It yfir í Kristján Júl. sem ber ábyrgð á skrifunum.
Þarna er einnig hægt að eyða út bloggum. Til dæmis ef maður hefur gefið einhverjum séns en síðan kemur í ljós að þetta sé bara leiðinlegur bloggari. Eða ef þetta er einhver sem er hreinlega hættur að blogga.
Síðasta myndin er meira til gamans. Hún sýnir tölfræðina yfir blogglestur minn.
Þarna má sjá að ég er áskrifandi að 94 bloggum (þau eru ekki öll virk þó). Síðustu 30 daga hef ég lesið 1.344 bloggfærslur. Það gerir um 45 lesnar bloggfærslur á dag.
Þarna get ég einnig séð hvaða daga vikunnar flest bloggin birtast og á hvaða tíma dags ég les bloggfærslunar. Þá get ég séð hverjir eru duglegastir að blogga og svo framvegis.

Það er misjafn eftir því hvar bloggin eru hýst og hvernig þau eru stillt hversu mikið birtist af hverri færslu í safnaranum. Lang flestir eru með moggablogg. Þau birtast þau í heild sinni með myndum og öllu. Hjá 123.is birtist allur textinn en myndirnar ekki. Hjá Blogcentral urðu breytingar fyrir skömmu. Núna getur maður lesið færsluna í heild sinni með myndum. Áður birtist bara fyrirsögnin, því þurfti maður að smella á hana og lesa færsluna sjálfa á bloggsíðunni í nýjum glugga.
Aðalmálið er þó að maður sér hverjir hafa skrifað nýja færslu og sparar sér þannig gríðarlega mikinn tíma. Það mikinn tíma að maður getur verið áskrifandi að 100 bloggum, lesið þau öll og haft nægan tíma afgangs fyrir eitthvað annað hangs!

Ofan á þetta má bæta því við að í flestum almennilegum gsm símum er hægt að fara inn á þessa sömu slóð og lesa færslurnar í símanum. Gríðarlega þægilegt þegar maður er eitthvað að hangsa og bíða og hefur fartölvuna ekki klára við höndina.

Sem sagt ég mæli endregið með því að allir sem lesa fleiri en fimm blogg dagsdaglega fái sér bloggsafnara.

Google Reader
Búa til Google Account

Engin ummæli:

Skrifa ummæli