07 apríl 2008

Ég stend ekki með flutningabílstjórum

Eins og ég er hrifinn af mótmælum. Oftar en ekki dáist ég af þeim sem mótmæla, sama hvort ég sé sammála þeim eða ekki. En ég get ekki staðið með flutningabílstjórum í þeirra baráttu.
Ekki af því ég er ekki sammála þeim, ekki af því að þeir beita aðferðum sem mér hugnast ekki, ekki af því þeir trufla umferð saklausra borgara og svo framvegis. Ég varð til dæmis mjög hrifinn þegar bændur í Frakklandi sturtuðu mörgum tonnum af tómötum á McDonalds af því þeir voru að mótmæla einhverju. Mig minnir að það hafi ekki tengst hamborgarakeðjunni neitt sérstaklega.

Ástæðan fyrir því að bílstjórarnir fá ekki mitt samúðaratkvæði er af öðrum toga. Eftir að hafa kynnt mér málið lítillega sýnist mér að vandi bílstjóranna liggi ekki í háu eldsneytisverði heldur í samstöðuleysi. Eða ætti að kalla þetta samkeppni?
Málið er að eftir því sem ég kemst næst hafa vörubílstjórar, sem margir hverjir vinna sjálfstætt, ekki hækkað taxtann hjá sér að neinu ráði í mörg ár. Þeir eru undir hælnum á verktökum sem kaupa af þeim vinnu.
Þetta ku vera Sturla Jónsson talsmaður bílstjóranna. Myndin er af Vísi.is

Ef einhverjum dettur í hug að hækka taxtann er einfaldlega hringt í næsta bílstjóra sem er ekki búinn að hækka. Þá er eina ráðið í stöðunni að lækka taxtann aftur eða finna sér nýja vinnu. Þetta hef ég óbeint eftir atvinnubílstjórum sem eru ekki hlynntir mótmælunum akkúrat á þessum forsendum.

Nú er þetta svolítið tvíeggjað því ekki getur maður ætlast til þess að atvinnubílstjórar landsins taki höndum saman og hækki hjá sér taxtana upp úr öllu valdi. Slík samráð þekkjast reyndar víðast hvar í þjóðfélaginu en eru tæplegast fólki til góða.
En það hlýtur að vera hægt að finna einhvern milliveg í svona máli. Það er jú staðreynd að olíu- og bensínverð hefur hækkað töluvert síðustu ár. Það er hæpið að kenna Geir og Sollu um það.

Ef bílstjórarnir væru að mótmæla einhverju öðru, t.d. lágum miskabótum til þolenda kynferðisbrota eða bágri stöðu feðra við hjónaskilnað, og myndu beita nákvæmlega sömu aðferðum þá væri hjarta mitt með þeim. Ég er því hlynntur mótmælunum og aðferðarfræðinni en málefnið fær ekki mitt kredit. Það vita jú allir að það þýðir ekkert að óska eftir fundi með ráðherra sem setur málið í nefnd. Þannig fæst aldrei niðurstaða í svona mál. Menn þurfa að þora.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli