06 apríl 2008

Hlutir sem ég skil ekki

Suma hluti skil ég ekki. Yfirleitt er það eitthvað tengt náminu og með smá vinnu og fyrirhöfn kemur að því að ég skilji hlutina. Þetta kannast allir við.
Svo er annað sem ég skil ekki og get aldrei nokkurn tímann skilið. Þá er það yfirleitt eitthvað sem ég hef gert eða ekki gert.

Það eru tveir nýlegir atburðir sem ég barasta næ ekki upp í. Ég er búinn að velta þessu fyrir mér fram og aftur og er bara engu nær.
Annars vegar þá var ég að keyra um daginn. Var að beygja til hægri inn á einhverja götu. Áður en ég beygi lít ég til vinstri og þar er enginn bíll. Þegar ég er kominn inn á götuna sé ég þennan roknajeppa í rassgatinu á mér og alveg greinilegt að ég hafði svínað fyrir hann. Það voru ekki nema svona 50 metrar í næstu gatnamót. Þegar þangað var komið fór jeppinn á akreinina við hliðina, bílstjórinn horfði hneykslaður á mig og hristi hausinn. Ég er enn þá að velta því fyrir mér hvaðan hann kom!
Hins vegar þá gleymdi ég vegabréfinu mínu þegar ég fór til Portúgal. Þegar ég var að labba inn í Leifsstöð mundi ég eftir því. Ekki sekúndu fyrr.
Einhverra hluta vegna þá kom þetta blessaða vegabréf, sem hefur ferðast með mér um allan heim, bara aldrei upp í huga minn fyrr en þá.
Það hefur alltaf verið regla hjá mér þegar ég legg í ferðalög að allt sem maður þarf er VISA kort og vegabréf. Með þetta tvennt í farteskinu má alltaf redda sér ef eitthvað gleymist.

Það hjálpaði mér ekkert að 8 klst. fyrir ferðina tók ég upp fartölvuna hennar ömmu gömlu til að athuga hvort ég gæti lappað eitthvað upp á hana. Þegar ég opnaði fartölvutöskuna lá vegabréfið hennar ofan á tölvunni. Hefði það ekki átt að gefa mér vísbendingu?

2 ummæli:

 1. Velkominn heim :) Ég vissi ekki hvað hafði orðið um þig.. hélt þú værir haldinn svona hrikalegri ritstíflu. Gott að svo var ekki. Annars hefði ég nú hringt og athugað með þig.. fljótlega.
  Merkilegt þetta með vegabréfið. Hjá mér er það orðin hefð að lenda í last minute STRESSI leitandi að vegabréfinu.. finn það yfirleitt á fáránlegum stöðum, einmitt svona "Ég bara skil þetta ekki!" stöðum. Hlakka til að fá mér náttborð. Þá verður það alltaf í náttborðsskúffunni. Eníveis, ég var bara að spá hvort ég detti útaf listanum ef ég blogga ekki innan ákveðinna tímamarka, sé að ég er neðst..
  Ha?
  Já og svo var ég að spá í öðru.. hvernig fór þetta með vegabréfið? Fórstu án þess?

  SvaraEyða
 2. Hæ Huld.
  Ég var tímanlega á flugvellinum þannig að ég hringdi í þau gömlu og Siddi renndi eftir vegabréfinu og keyrði með það á móti mér. Ég hefði í raun ekki þurft vegabréfið þar sem þetta er Schengen enda notaði ég það ekki fyrr en á hótelinu. En vegabréfið mitt er alltaf í náttborðsskúffunni minni sem kom sér mjög vel þarna. Ef það hefði verið einhverstaðar hefði ég bara getað gleymt því að láta sækja það fyrir mig!

  Sko þetta bloggdæmi er akkúrat núna stillt þannig að það birtist nýjasta bloggið hjá hverjum og einum það nýjasta m.v. tíma er efst.
  Þannig að sumir sem eru þarna og blogga jafnvel oft á dag munu ekki einoka listann.
  Eins og staðan er eru 11 bloggarar á þessum lista þannig að það eru ekki miklar líkur á að lenda utan listans en getur þó gerst.
  Ég á eflaust eftir að taka einhverja út og setja nýja og fleiri inn í staðinn. Þetta er allt saman á tilraunarstigi enn þá:)

  SvaraEyða