08 apríl 2008

Trúverðugleiki vefmiðla

Á spjallborði sem ég sæki var umræða um frétt sem birtist á Visir.is. Þar var fréttinn birt orðrétt en ekki gefinn hlekkur á fréttina sjálfa. Ég fór því á Visi og leitaði fréttina uppi. Viti menn fréttinni hefur verið breytt töluvert.

Svona er textinn á spjallborðinu sem er bara copy/paste af Vísi (feitletrun er mín):
Vísir, 03. apr. 2008 11:14

Orkuveitan selur gömul líkamsræktartæki

Orkuveita Reykjavíkur auglýsir til sölu í Morgunblaðinu í dag fjöldann allan af líkamsræktartækjum. Um er að ræða gömul tæki sem fyritækið [sic] keypti notuð þegar nýja húsið var tekið í notkun. Tilvalið fyrir fólk á landsbyggðinni segir Sigrún A. Ámundadóttir hjá Orkuveitunni.


„Þegar við fluttum yfir í núverandi húsnæði var gert ráð fyrir líkamsræktaraðstöðu og voru keypt notuð tæki. Síðan var gerður þjónustusamningur við World Class sem sá um aðstöðuna. Fyrir nokkru ákvað World Class síðan að þessi tæki væru ekki boðleg fyrir sína kúnna þannig að þeir tóku þetta yfir í heild sinni og fylltu stöðina af sínum tækjum," segir Sigrún en í kjölfarið var gömlu tækjunum hent út.

Sigrún segir að tækin séu mörg hver komin til ára sinna og séu ekki boðleg líkamsræktarstöðvum í Reykjavík. „Þetta eru engu að síður tæki sem stöðvar úti á landi geta boðið sýnum viðskiptavinum, við gerum nefnilega minni kröfur úti á landi," segir Sigrún en öll tækin verða seld í einu lagi.


Því geta einstaklingar ekki nælt sér í einstök tæki en listinn er nokkuð langur. Þar má sjá kálfavél, fótakreppur, kviðvélar og tvo ljósabekki.
„Nei einstaklingar geta ekki nælt sér í ljósabekk hjá okkur. Það er bara annaðhvort allt eða ekkert."

Sigrún segist vonast til þess að aðilar úti á landi geti nælt sér í tækin og byrjað að æfa sem fyrst. „Það er það sem skiptir máli."

Fréttin eins og hún er núna á Vísi (feitletrun mín):

Vísir, 03. apr. 2008 11:14

Orkuveitan selur gömul líkamsræktartæki

Orkuveita Reykjavíkur auglýsir til sölu í Morgunblaðinu í dag fjöldan [sic] allan af líkamsræktartækjum. Um er að ræða gömul tæki sem fyritækið [sic] keypti notuð þegar nýja húsið var tekið í notkun.

„Þegar við fluttum yfir í núverandi húsnæði var gert ráð fyrir líkamsræktaraðstöðu og voru keypt notuð tæki. Síðan var gerður þjónustusamningur við World Class sem sá um aðstöðuna. Fyrir nokkru tók World Class alfarið við rekstri stöðvarinnar og ákvað þá að setja sín líkamsræktartæki inn," segir Sigrún A. Ámundadóttir hjá Orkuveitu Reykjavíkur en í kjölfarið voru gömlu tækin auglýst.

Sigrún segir að tækin séu mörg hver komin til ára sinna. „Það hefur aðallega verið spurt um þessi af landsbyggðinni. Við landsbyggðarfólk gerum kannski minni kröfur en Reykvíkingar," segir Sigrún, sem býr á Akranesi, og áréttar að þetta sé eingöngu hennar skoðun.

Tækin verða seld í einum pakka og því geta einstaklingar ekki nælt sér í einstök tæki en listinn er nokkuð langur. Þar má sjá kálfavél, fótakreppur, kviðvélar og tvo ljósabekki.

„Nei einstaklingar geta ekki nælt sér í ljósabekk hjá okkur. Það er bara annaðhvort allt eða ekkert."
Eins og glöggir lesendur taka eftir þá hefur fréttinni verið breytt töluvert. Það er eitthvað sem vefmiðlar geta leyft sér en þarf að fara varlega í. Að minnsta kosti þætti mér eðlilegt að það kæmi fram t.d. fyrir neðan fréttina að henni hafi verið breytt.
Látum það vera að menn leiðrétti stafsetningarvillu eða málfarsvillu en þegar fréttin breytist sem og tilvitnanir og annað þá er þetta orðið varhugavert.
Það hlýtur því að vera nauðsynlegt fyrir miðla á borð við Vísi, Mbl og Eyjuna svo dæmi sé tekið að hafa einhverjar verklagsreglur um svona. Það eykur gagnsæi og þannig trúverðugleika miðlanna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli