26 júlí 2008

Breyta moggabloggarar sögunni?

Fyrr í vikunni birtist svakalega hnyttin frétt á Mbl.is með fyrirsögninni "Allsnakinn á Esjunni í 600 metra hæð". Þetta þótti hin fyndnasta frétt og moggabloggshýenurnar þyrptust á fréttina og blogguðu um hana. Flestir skrifuðu í svipuðum anda og fréttin sjálf, þ.e. reyndu að vera fyndnir. Menn veltu því fyrir sér hvort maðurinn mætti ekki vera nakinn á Esjunni, hvort það væri ekkert þarfara við "peningana okkar" að gera en að senda þyrlu og leitarhópa á staðinn og svo framvegis.

Inn á milli leyndust bloggarar sem vöruðu við glensinu. Sögðu að þetta væri alvarlegt mál og ekki fótur fyrir því að grínast og ræða um einhverja peninga í þessu samhengi. Þeir voru kafskotnir jafn fljótt af hýenunum.

Á einhverjum tímapunkti áttuðu siðgæðisverðir moggabloggsins sig á því að hugsanlega væri málið alvarlegra en svo að það væri við hæfi að leyfa hýenunum að rífa það í sig og í kjölfarið var möguleikinn á að blogga við frétt tekinn út. Þá höfðu einhverjir tugir hýena lagt orð í belg.

Hérna má sjá fréttina á Mbl.is eins og hún lítur út núna, eftir að gangi sögunnar var breytt. Hérna má hins vegar sjá fréttina á meðan hægt var að blogga við hana.

Í seinni slóðinni má sjá hversu hnyttnir bloggararnir voru, hvernig húmorinn lék um frjóa hugi þeirra. Kaldhæðnin við þetta allt saman er að stór hluti bloggaranna hefur eytt færslunum um þetta mál.

Áttar fólk sig ekki á því að það sem fólk bloggar einu sinni á netið fer ekki þaðan aftur? Ekkert frekar en að Jón Jónsson geti hætt við lesendabréfið sem hann skrifaði og birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Sem dæmi um hýenu, sem skrifaði hnyttna færslu við áðurnefnda frétt, er þessi maður. Eins og sést þegar hlekknum er fylgt kemur upp villa sem segir að þessi bloggfærsla sé óvirk eða með öðrum orðum færslunni hefur verið eytt. Færslan var vangavelta um hvort það væri peninganna virði að leita af nakta manninum. Rökin voru þau að hann væri ekki hættulegur og því engin ástæða til að hafa áhyggjur af nöktum manni í 600 metra hæð í kulda og ógeði! Kaldhæðnin hámarkast þó þegar maður les dálkinn um höfund bloggsíðunnar þar sem segir orðrétt (feitletrun mín):
Hef ákveðnar skoðanir, skrifa alltaf undir nafni. Og stend við það sem ég segi
Þar hafið þið það. Hann stendur við það sem hann segir! Ég þekki þennan mann ekki neitt og hef ekki lesið bloggið hans hingað til. Tók hann bara sem dæmi. Það eru fleiri en hann sem blogguðu "hnyttið" við fréttina, tóku bloggið út en halda því síðan fram að þeir standi við það sem þeir segja!

Boðskapurinn í þessu bloggi er ekki einungis sá að fólk verði að sýna nærgætni í því sem það skrifar. Eflaust hefði ég á einhverjum tímapunkti séð eitthvað spauglegt við þetta og reynt að vera fyndinn, eins og tugir bloggara. Boðskapurinn er ekki síður sá að fólk verður að átta sig á því að þegar eitthvað er skrifað á netið þá verður það á netinu, sama hvort fólki líkar betur eða verr.

3 ummæli:

 1. Skil samt sem áður fólk ágætlega sem fannst þetta skondið í upphafi. Persónulega fannst mér það fyndið að vita af nöktum manni á Esjunni, en auðvitað skelfilegt það sem úr varð.

  SvaraEyða
 2. Ég veit að það voru margir sem fannst þetta skondið. Þetta barst einmitt í tal í vinnunni minni eftir að fyrsta fréttin birtist á mbl.is. Þá voru einhverjir einmitt að velta þessu fyrir sér.
  Það er eins og fólk haldi bara að lögreglan og björgunarsveitir séu fífl. Fólk var ekkert að taka með í reikninginn að maðurinn væri í 600 metra hæð, hann var ekkert í skjólinu á Austurvelli.
  Annars var líka punkturinn að benda á að þegar fólk skrifar eitthvað á netið þá fer það ekkert út þó að fólkið vilji það.

  Og kannski líka að benda hálfvitum á að ef þeir eru að lýsa því yfir að þeir standi við það sem þeir skrifi þá eiga þeir að standa við það að standa við það....:)

  SvaraEyða
 3. Já, þessi maður er ekki alveg með þetta. Annars er yfir höfuð frekar glórulaust að blogga um fréttir þarna á mbl.

  SvaraEyða