20 júlí 2008

Rétta útgáfan

Fór á Vodafone völlinn í gær og horfði á leik Vals og Keflavíkur sem endaði 1-1. Er ekki frá því að Valsmenn megi prísa sig sæla með eitt stig úr leiknum á meðan Keflvíkingar geta leyft sér að vera ósáttir með að hafa ekki náð í þrjú stig.

 
Pálma fannst þetta vera óskiljanlegt í sjónvarpinu um daginn!
 
Ég í sjálfu sér ekki mikið um leikinn sjálfan að segja. Hins vegar er ein leiðrétting sem ég þarf að koma á framfæri. Þannig er mál með vexti að hann Pálmi Rafn vinur minn var að leika sinn síðasta leik fyrir Valsmenn því hann er að fara til Noregs að sparka tuðru.Óskar ritstjórn honum að sjálfsögðu til hamingju með það.
Í leikskrá Valsmanna var ritað og rætt um Pálma. Hann kvaddur og þakkað fyrir framlag sitt til liðsins og óskað velfarnaðar á nýjum stað. Síðan var smá fróðleikur um strákinn látinn fylgja. Þar stóð að Pálmi hefði spilað sinn fyrsta meistaraflokksleik með Völsungi gegn Hvöt þann 31. maí 2001. Það er rangt.

 Oftar en ekki var þetta leiðin til að stöðva mig!!!

Það vill þannig til að ég var þarna að spila minn fyrsta meistaraflokksleik en Pálmi hafði spilað slatta af leikjum sumarið áður. Ég fletti þessu upp til staðfestingar og miðað við heimasíðu KSÍ þá spilaði S-i sinn fyrsta leik í meistaraflokki þann 26. maí 2000 á heimavelli gegn Magna frá Grenivík og lék í treyju númer sjö. Þá var hann 15 ára að verða 16 um haustið. Leikurinn fór 1-1 á einhvern óskiljanlegan hátt. Þetta sumar spilaði hann níu leiki og skoraði í þeim tvö mörk.

Sumarið eftir eða nánar tiltekið þann 31. maí sem er tiltekinn í Valsblaðinu þá er Pálmi því að spila sinn 10 leik í deildinni fyrir Völsung. Þetta var reyndar hans fyrsti leikur sem fyrirliði sem er annað mál.

Essi, Haddi, Baldur Mýv. og Baldur Kúta að rífast um hver sé mesti höstlerinn frá Húsavík. Held að engin niðurstaða hafi náðst.

Niðurstaðan er því sú að ég spilaði minn fyrsta meistaraflokksleik þann 31. maí 2001 með Völsungi gegn Hvöt. Pálmi spilaði sinn fyrsta leik ári áður eða þann 26. maí 2000.

 Nývaknaður Haddi með bleika tannburstann sinn. Hann er með fetish fyrir bleikum tannburstum.

Gaman að geta þess að Hallgrímur "Haddi" Jónasson, sem var einmitt í hinu liðinu á Vodafone vellinum í dag, kom í fyrsta sinn við sögu í meistaraflokksleik í leiknum á eftir Hvatarleiknum. Það var 3. júní 2001 sem við Völsungar lékum gegn KS í bikarkeppninni. Furðulegur leikur! Ég man þetta eins og þetta hafi gerst í gær. Við töpuðum leiknum 2-0 og bæði mörkin komu úr víti. Vorum með 3 varamenn og engan í liðsstjórn þannig að það voru bara þrír menn á bekknum. Við fengum 8 gul spjöld en KS ekki neitt. Engin skipting af okkar hálfu. Haddi fékk gult fyrir að rífa kjaft af bekknum. Gleymi því aldrei hvað hann var hræddur þegar dómarinn hljóp til hans og spjaldaði hann fyrir kjaftbrúk. Það var stórbrotið! Dómarinn ekki að standa sig í þessum leik gegn KS. Það er alveg ljóst. Þetta er klassískt dæmi um akkúrat það sem Jónas Hallgríms var að benda á um daginn varðandi dómgæsluna. Gott ef hann tók ekki dæmi um hvernig það væri að fara til Siglufjarðar og spila.

 Balli Mýv. að skúra. Hann lærði það af mér í Red House í gamla daga.

Baldur "Mývetningur" Sigurðsson og Hermann "Lassí" Aðalgeirsson spiluðu báðir sinn fyrsta leik í næsta leik á eftir KS leiknum eða 9. júní 2001 á heimavelli gegn Neista. Eftirminnilegt að Jói kóngur skoraði þrennu í leiknum. Gott ef ég lagði þau ekki öll upp ásamt því að skora eitt mark!
Baldur náði líka að skora. Var síðan skipt út af um miðjan síðari hálfleik fyrir Gumma Lilla. Þá hafði mér verið skipt út af fyrir Simma Jósteins. Hemmi fór hins vegar út af í hálfleik fyrir Níels.

Lassí að halda sér. Smá sár kannski en fallegur er hann.

Það má geta þess að varðandi minn fyrsta leik er ekki alveg 100% nákvæmt. Í raun spilaði ég minn fyrsta leik 27. júní 1999 ásamt Magnúsi "Mók" Halldórssyni. Þá kom ég inn á á '82 min. Ég hef aldrei talið þennan leik með þar sem ég æfði alls ekki fótbolta á þessum tíma og var, ásamt Magga, fenginn til uppfyllingar í þennan leik. Í sárabót fengum við að fara inn á í nokkrar mínútur. 

Mókurinn á góðri stund ásamt Unnari og Balla Mýv.

2 ummæli:

 1. Skemmtileg upptalning... þess má geta að ég kom inná í mínum fyrsta leik fyrir Völsung gegn Tindastóli þann 10. júlí 2002 á 20. mínútu eftir að Halli Har sleit krossbönd. Þá var ég einmitt 5. markmaðurinn til að spila í markinu það tímabil í aðeins 9 leikjum. Merkilegt tímabil.

  Ási þjálfarinn þinn skoraði eina mark okkar í þessum leik og Davíð Þór félagi þinn skoraði einmitt fyrsta markið hjá mér í meistaraflokki, gott ef hann rakaði ekki á sér stjörnuna í sturtunni eftir leik líka?

  Á að mæta á Mærudaga?

  SvaraEyða
 2. Skemmtileg upptalning.

  Þú skalt nú samt vera alveg rólegur, þegar þú ferð að rifja hvernig þínir fyrstu leikir voru fyrir Völsa, eftir rækju-lífernið:). Varst byrjaður að taka þínar víðfrægu sina-teygjur eftir 20 mínútur. Reyndar yfirleitt búinn að skora þá; flest ólögleg mörk. Þar sem þú togaðir alltaf í vinstri öxlina á varnarmanninum áður en þú fórst framhjá honum hinu megin. Verstu dómarar alheimsins - sem Jónas hefur gert heimsfræga - sáu aldrei neitt.

  Ég var latari en flest allt lifandi minn stutta feril. Hefði auðvitað átt að spila sem striker. Sé það núna. Í seinni tíð hef ég komist að því að Baldur Mývetningur og Pálmi Rafn bera fulla og óskoraða ábyrgð á letinni. Þeir hlupu of mikið þegar ég var að spila með þeim á miðjunni; sem gerði það að verkum að ég hafði ekki pláss til að hlaupa í:). Þeir bættu sig því meira en eðlilegt var, á minn kostnað. Með öðrum orðum; þeir geta rakið allan sinn uppgang til mín og fórnfýsi minnar; að leyfa þeim að hlaupa óhindrað inn í plássin (sem voru oft ískyggleg). Sérstaklega í þessum high-tempo leikjum í 3. og 2. deild.

  Ég verð á Mærudögum.
  kv Maggi Halldórs

  SvaraEyða