09 júlí 2008

Yfirlýsing frá mér

Ég hef ákveðið að senda frá mér yfirlýsingu vegna umræðu síðustu daga um dómgæslu á Íslandi. Umræðan hófst í gær með ítarlegu viðtali við Jónas Hallgrímsson þjálfara meistaraflokks Völsungs. Þar úthúðaði Jónas KSÍ og dómgæslu í neðrideildum á Íslandi í löngu máli.
Í kjölfarið sendi meistaraflokksráð Völsungs frá sér yfirlýsingu þar sem ummæli Jónasar voru hörmuð og sögð vera án vitundar og vilja ráðsins. Einnig sendi Þjálfarafélag Íslands frá sér tilkynningu þar sem ummælin voru hörmuð. Þá sendi KSÍ einnig frá sér yfirlýsingu þar sem ummælin voru hörmuð og þeim vísað alfarið á bug.
Þá kemur yfirlýsingin frá mér:

Reykjavík 9. júlí 2008

Ég hló mig máttlausan þegar ég las viðtalið við Jónas. Í mínum augum er maðurinn snillingur, hefur alltaf verið og mun alltaf verða. Þessi orð má þó alls ekki skilja sem stuðningsyfirlýsingu við hans orð.

Mig rennir í grun að ýmislegt sem Jónas lét hafa eftir sér sé eitthvað sem margir, tengdir knattspyrnunni, hafi hugsað en ekki þorað að segja. Annað er eitthvað sem fæstir myndu taka undir.
Knattspyrnuyfirvöld eru ekki í þeirri stöðu að refsa Jónasi því hann hefur sjálfur tekið þá ákvörðun að hætta afskiptum af knattspyrnu.

Mitt mat er því að það besta í stöðunni væri að allir þeir aðilar sem koma að knattspyrnunni á Íslandi á einn eða annan hátt fari vandlega yfir stöðuna, greini hvar vandamálið liggur og reyni að byggja upp betra traust á milli leikmanna, aðstandenda, knattspyrnuforystunnar og allra annarra sem tengjast þessum frábæra leik á einn eða annan hátt. Að mínu mati snýst málið ekki eingöngu um Jónas gegn KSÍ. Það væri mikil einföldun að horfa þannig á þetta og í raun eingöngu til að drepa málinu á dreif og forðast þarfa umræðu.


Það er enginn hafinn yfir gagnrýni og miðað við hvernig umræðan hefur þróast í sumar þá hlýtur að vera ljóst að einhvern veginn þurfi að bregðast við. Ef KSÍ skipar starfshóp til að fara yfir stöðu mála, hvernig málum er háttað varðandi dómgæslu og umgjörð í kringum leikina í heild sinni sem og grundvöll ítrekaðra ásakana þjálfara gegn dómurum, þá býð ég mig fram sem sjálfboðaliða í hópinn.

Andri Valur Ívarsson

2 ummæli:

  1. Ok afsakið mig.. en mér finnst þetta viðtal litað af bræði og biturð. Án þess að vita neitt um þetta mál eða hvernig málin standa þarna í boltanum ;) þá hefði passað mjög vel að skrifa með inná milli "slef" og "fruss".. svo mikil virtist bræðin vera. Eða þannig túlkaði ég þetta. Og þar af leiðandi ekki eins marktækt fyrir vikið.
    Eiginlega bara barnalegt. Spurning hvort ekki hefði verið gáfulegra að róa sig fyrst.. já eða fara aðrar leiðir með þessar skoðanir.
    En hvað veit ég svosem.. ekki er ég í annarri deildinni =)

    SvaraEyða
  2. Ég verð að segja að ég hló líka mikið þegar að ég las þetta enda eins og þú segir er maðurinn algjör snillingur. Ég hef bara séð einn leik í sumar og það var á móti Hetti sem þeir unnu og þar var dómgæslan ágæt (eins og hann segir reyndar sjálfur) en ég hef svo sem samt fylgst með og heyrt að dómgæslan hafi víst verið hrikaleg. En þar sem að ég hef ekki séð leikina að þá get ég ekki dæmt til um hvernig dómgæslan hefur verið en hins vegar styð ég hann fullkomnlega í því sem hann segir með eftirlitsdómarana. Það er meira segja komin umræða hérna í norsku 1 . deildinni um hvað dómgæslan sé slök og að það megi rekja til þess að dómararnir komi bara saman í leiki og þar á meðal eftirlitsdómarinn og því kannski er hann ekki hlutlaus í gagnrýni sinni á frammistöðu dómaranna. Og ég veit alveg hvernig þetta er þarna fyrir norðan heima þar sem að þetta eru alltaf sömu "vinirnir" sem dæma og sjá um eftirlitið. Ég sat einmitt við hliðina á Rúnari "skalla" vera að sjá um eftirlitið á Hattar leiknum í sumar og það segir allt sem segja þarf hvernig gagnrýnin hefur verið í þeim leik. Og ég spilaði leikinn á móti Stjörnunni í 3. flokki sem hann nefnir í viðtalinu og það var einhver mesti dómaraskandall í sögu Íslands!! Ég held að Jónas hafi verið að segja (eins og þú segir Andri) ýmislegt sem að mörgum hefur langað að segja en ekki þorað. Og mér finnst það líka sorglegt að Stjórnarkallarnir í Völsungi hafi guggnað og komið með þessa afsökunarbeiðni sem mun leiða til þess að hann ætlar að hætta að hafa afskipti af boltanum á Húsavík. Það er virkilega slæmt að missa hann úr starfinu þarna þar sem að hann er fullur af fróðleik um fótbolta og það er enginn á Húsavík sem gæti kennt strákunum meira en hann í fótbolta. Og ég tali nú ekki um ef hann hefði tekið að sér seinna að sjá um eitthvað af yngri flokkunum. Og Huld ég get fullyrt það að þetta var ekki sagt í einhverri bræði eða hugsunarleysi, hann hefði sagt þetta hvort sem að hann hefði verið nýkominn af leik þar sem dómarinn hefði gefið hinu liðinu 3 víti og dæmt 4 mörk af Völsungum eða verið að drekka Rauðvín heima hjá sér með Dire Straits á fóninum.

    SvaraEyða