20 ágúst 2008

Er neytendastofa rusl?

Neytendastofa hefur sektað níu bakarí fyrir að verðmerkja ekki snúða, kók og kleinuhringi. Í sjálfu sér er það fínasta mál að sýna svona aðhald og pressa á fyrirtæki að hafa þessi mál í lagi. Ég set hins vegar spurningarmerki við það að stökkva á bakaríin á sama tíma og stóru matvöruverslanirnar eru með buxurnar á hælunum í þessum málum.

Fyrir það fyrsta þá er miklu auðveldara að eiga við lélegar verðmerkingar á stöðum eins og bakaríum þar sem kúnninn nýtur þjónustu afgreiðslufólks. Það er töluvert auðveldara að spyrja afgreiðslumanninn í bakaríinu hvað snúðurinn kosti en að finna einhvern í Bónus eða Krónunni til að spyrja hvað frosna pítsan kosti. Ef maður finnur einhvern þá þarf hann að fara á kassa og skanna vöruna inn til að sjá verðið.

Í annan stað verslar hinn almenni fjölskyldumaður fyrir tugi þúsunda í hverjum mánuði í matvöruverslunum, fleiri hundruð vörumerki.

Það hlýtur því að vera rökréttara, og nytsamara, að Neytendastofa leggi meiri áherslu á að verðmerkingar séu í lagi í verslunum þar sem stór hluti útgjalda fólks liggur.

Það hefur stundum hvarflað að mér að taka að mér sjálfboðastarf fyrir Neytendastofu. Í því felst að ég færi í Bónus, Krónuna og 10/11 og fyllti körfuna af vörum sem eru óverðmerktar. Færi með vörurnar að kassa og spyrði afgreiðslumanninn hvað hver og ein vara kostaði. Svo myndi ég segja "nei þetta er of dýrt" í hvert skipti sem ég fengi verð. Þetta yrði að sjálfsögðu gert seinni part á föstudegi til að valda sem minnstum óþægindum.

5 ummæli:

 1. Til að valda sem minnstum óþægindum:) hehe...ég styð þig heilshugar í þessu, legg til að þú hringir í Neytendastofu og óskir eftir þessu starfi...

  SvaraEyða
 2. Magnaður skanni í Bónus úti á Granda við grænmetiskælinn þá þarftu ekki að tala við neinn.

  Sneiðin

  SvaraEyða
 3. En er það ekki ósvífið að hafa skanna á svæðinu, til að fólk geti athugað hvað varan kostar, þegar versluninni ber, samkvæmt lögum, að hafa vörurnar verðmerktar?
  Sýnir þetta ekki ákveðið virðingarleysi og brotavilja?

  SvaraEyða
 4. Það er af mörgu að taka Andri minn. T,s eiga fataverslanir að hafa verðmerkingar út í búðarglugga. Hversu margkar verlanir helduru að hafi standi við það?

  Annars líst mér vel á þetta hjá þér. Go for it.

  SvaraEyða
 5. Já það hljóta allar verslanir að þurfa að verðmerkja! Segi það samt aftur að mér finnst hótinu skárra að þurfa að spyrja hvað gallabuxur kosta en hvað snakkpokinn kostar:)

  SvaraEyða