26 september 2008

Ábyrg skrif bloggara

Í gær las ég tvær bloggfærslur sem reyndust vera rangar og höfundarnir drógu orð sín til baka.
Svansson skrifaði færsluna "Nafngreiningar og myndbirtingar" sem var ádeila á Vísi.is fyrir að nafngreina stúlkuna sem var myrt í Dóminíska Lýðveldinu svo skömmu eftir að fréttir af andláti hennar bárust. Þar stóð meðal annars:
Það er rótgróin hefð fyrir því í íslenskum fjölmiðlum að þeir bíða með að nafngreina látið fólk í fréttum þar til fengist hefur samþykki ættingja, eða öllu heldur staðfesting á að allir nákomnir hafi fengið fréttirnar. Maður hefur sterklega á tilfinningunni að svo hafi ekki verið í þessu tilfelli, enda sá maður nafnið ekki í öðrum fjölmiðlum um svipað leyti. Er það eftirsóknarvert að skúbba nafni einhvers sem hefur verið myrtur, einkum ef það gerðist utan landsteinanna?
Og:
Megum við ef til vill búast við samkeppni milli DV og vísis.is um það hvor verður fyrri til að skúbba nöfnum fólks sem lætur lífið með vofeiflegum hætti?
Skömmu eftir að færslan birtist uppfærir Svansson færsluna þar sem kemur fram að blaðamaður Vísis hafi hringt og tjáð honum að haft hafi verið náið samband við föður stúlkunnar varðandi nafngreiningu hennar. Sem sagt að Svansson hafi líklega aðeins hlaupið á sig þegar hann gagnrýndi Vísi fyrir nafnbirtinguna og gerði ráð fyrir því að þeir hefðu verið svona áfjáðir í að skúbba nafni hennar.

Hitt dæmið er Andrés Jónsson almannatengill. Hann birti stutta færslu þess efnis að orðrómur þess væri á kreiki að Icebank væri á leið í gjaldþrot. Um það yrði tilkynnt samdægurs eða á morgun [í dag].
Þetta reyndist rangt hjá honum*. Andrés tók út texta fyrri færslunnar og setti inn leiðréttingu í staðinn.
Í Viðskiptablaðinu í dag er rætt við Agnar Hansson bankastjóra Icebank sem segir orðróminn vera ósannindi. Hann segir Ástandið (verður maður ekki að skrifa það með stórum staf?) vera svo eldfimt að menn rjúki upp til handa og fóta við minnstu tilefni. Því til stuðnings nefnir hann að á einni klukkustund hafi hann heyrt í forsætisráðuneytinu, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og ýmsum hagsmunaaðilum.

Gott og vel. Ég ætla mér ekki að setja eitthvað út á strákana fyrir þessar færslur sínar. Langar hins vegar að velta upp viðbrögðum þeirra.
Svansson segir í athugasemd á sinni síðu:
Mér þykir leitt ef ég hef stuðað menn - en ég get ekki fallist á að neitt sé athugavert við það að maður bloggi um það sem maður er að hugsa. Bloggarar eru ekki blaðamenn, og svolítið sérstakt að gera factcheck kröfu á þá.
Andrés segir m.a. á sinni síðu:

Allir. Hverjir sem þeir eru; blaðamenn, bloggarar, lögmenn eða almannatenglar eiga ávallt að leitast við að segja satt og rétt frá.
Ég geri hins vegar ekki sömu kröfur um ítarlega heimildarvinnu og ég geri til blaðamanna, þegar ég les eða skrifa blogg. Blogg hefur í flestum tilfellum mun minni trúverðugleika en hefðbundnir fjölmiðlar. Þetta vitum við öll sem lesum blogg.
Ég er búinn að velta þessu töluvert fyrir mér, hvort bloggarar eigi rétt á því að fara með fleipur bara af því þeir eru að skrifa blogg en ekki blaðagrein? Svansson segir að það sé svolítið sérstakt að gera factcheck kröfu á blaðamenn. Er það virkilega? Getur maður ekki gert kröfu um að bloggarar, eins og fjölmiðlamenn almennt, hafi eitthvað fyrir sér í því sem þeir skrifa? Geta menn kannski bara skrifað hvað sem er á bloggsíður því þeir eru ekki blaðamenn eða fréttamenn?

Jakob Bjarnar fer mikinn í athugasemdum sínum hjá Andrési. Hann segir það lengi hafa loðað við netverja að þeir haldi að önnur lögmál gildi um sín skrif en skrif í hefðbundna fjölmiðla.Að menn séu alveg jafn ábyrgir fyrir orðum sínum á netinu eins og annars staðar.
Er það hugsanlega bara rétt hjá honum? Eða er kannski bara í lagi að hafa færslurnar svona nokkuð réttar og í áttina að sannleikanum?*Bankastjóri Icebank hefur komið fram og sagt þetta vera rangt sem og að Andrés hefur tekið færsluna út. Hvort þetta tvennt sé trygging fyrir því að þetta hafi verið rangt get ég svo sem ekki dæmt um. Ef bankinn fer ekki á hausinn í dag var þetta væntanlega rangt!

4 ummæli:

 1. Ég myndi segja að bloggarar eigi að reyna hafa sýnar færslur sannar, sé verið að fjalla um þannig mál s.b.r Icebank dæmið...

  Eyjo

  SvaraEyða
 2. Þetta er verulega athygliverð vangavelta og full ástæða til að taka þetta alvarlega.
  Auðvitað ber fólki sem bloggar að leitast við að birta einvörðungu það sem það telur eiga við rök að styðjast, þ.e. heimildavinnan að vera í lagi.
  Hins vegar vitum við sem lesum blogg að ritskoðunin er engin og kröfur um hæfni bloggara er engin eins og við ætlumst til að ritstjórar/fréttastjórar gera til síns fólks.
  Við erum okkar eigin ritstjórar, stöndum og föllum með því bulli sem við birtum. Það þýðir að ef við staðhæfum eitthvað bull er það einfaldlega verst fyrir okkur sjálf.

  SvaraEyða
 3. Þetta er einmitt það sem ég er búinn að vera að pæla í. Auðvitað verður seint gerð sú krafa að fólk leggist í sömu heimildarvinnu og blaðamenn.

  Það tekur það líka enginn nærri sér þegar einhverjir bullukollar eru að gaspra einhverja vitleysu. Hins vegar þegar menn eru þokkalegir pennar og eru að skrifa eitthvað sem þeir vilja að fólk taki mark á, eins og báðir þessir menn sem ég tók sem dæmi, þá hlýtur maður að gera meiri kröfu um factcheck.

  Svo verður líka áhugavert að fylgjast með þegar fram líða stundir og dómstólar fara að taka mál fyrir er varða bloggskrif. Vissulega hafa einhverjir dómar fallið en maður vill sjá fleiri dæmi áður en maður getur metið hvernig dómstólar taka á þessu.

  SvaraEyða
 4. Ég væri löngu kominn í fangelsi ef að svívirðingar mínar um Sjálfstæðismenn á minni síðu hefðu verið teknar alvarlega t.d.
  En það er nú annars eðlis,ég get ekki betur séð á ráfi mínu um moggablogg að oft á tíðum eru þetta fólk sem gasprar og fullyrðir gagnvart náunganum eins og við þekkjum vel frá Húsavík,sérstaklega ef hann er vafasamur af þeirra mati.

  Snæden

  SvaraEyða