06 október 2008

Hafði Gylfi Magnússon rétt fyrir sér?

Á föstudaginn varð uppi fótur og fit í þjóðfélaginu eftir að Gylfi Magnússon, doktor í hagfræði frá Yale háskóla og dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sagði í fréttum útvarps að Íslenska fjármálakerfið væri komið í greiðsluþrot og að bankarnir væru tæknilega séð gjaldþrota. 
Nokkur veginn orðrétt var fréttin á þessa leið: 
Gylfi Magnússon:
„Íslenska fjármálakerfið er komið í greiðsluþrot. Við getum ekki staðið við skuldbindingar okkar í erlendri mynt. Það er meir að segja ekki hægt að útvega gjaldeyri núna til þess að flytja inn eðlilegar vörur. Það er hins vegar ekki þannig farið að landið sé gjaldþrota eða ríkið sé gjaldþrota það er ekki þannig. En það eru allmörg innlend hlutafélög og þar með talið bankarnir í reynd tæknilega séð gjaldþrota."
Anna Kristín Jónsdóttir hjá Rúv:
"Gylfi segir blasa við að gripið verði til róttækra aðgerða um helgina sem feli í sér í reynd að bönkunum verði lokað og erlendar eignir þeirra seldar í kjölfarið."
Gylfi:
"Um leið fara náttúrlega fjölmörg íslensk fyrirtæki sömu leið. Þau fara þá væntanlega fyrst í greiðslustöðvun og svo í gjaldþrot. Þessi tiltekt þýðir hins vegar ekki að ekki verði hægt að halda áfram efnahagsstarfsemi á íslandi því að útflutningurinn heldur áfram og býr til gjaldeyri sem að verður þá notaður til þess að standa undir innflutningi á mat og lyfjum og olíu og slíku."
Anna:
"Seðlabankinn verði þrátt fyrir þetta ástand að útvega gjaldeyri segir Gylfi. Þó að útséð sé með að hægt sé að útvega nægilega mikið til að halda bankakerfunum gangandi. Það myndi ekki leysa aðal vandann. Eignir íslensku bankanna dugi ekki fyrir skuldum þegar tekið sé tillit til þess að fjöldi fyrirtækja sé gjaldþrota í reynd þó að hann hafi ekki farið í gegnum lögformlegt gjaldþrotaferli."
Næsta frétt á eftir var viðtal við Sigurð Einarsson stjórnarformann Kaupþings sem vildi meina að Gylfi hefði rangt fyrir sér og væri að fara með fleipur. Hann hefði misskilið hrapalega hvað væri í gangi í þjóðfélaginu. Hann sagði meðal annars: 

„Nei ég verð nú að segja það að mér finnst faglegur trúverðugleiki dósentsins vera ansi kominn nærri gjaldþroti með þessum yfirlýsingum og ég tel þetta mjög óábyrgt að hans hálfu. Maðurinn hefur greinilega algjörlega misskilið hvað er að gerast í þjóðfélaginu þegar hann fullyrðir það að bankarnir eigi ekki fyrir skuldum það er alveg fráleitt og algjör misskilningur. Þetta snýst alls ekki um það, þetta snýst hins vegar um hvort laust fé sé nægjanlegt í kerfinu. Það er það sem þetta snýst um.“
 
 Í þar næstu frétt er síðan viðtal við Davíð formann bankaráðs Seðlabankans. Það segist Davíð ekki halda að ástandi væri jafn slæmt og Gylfi hefði lýst. Að við ættum að tala varlega. Síðan sagði hann:
"... svona til fróðleiks þá erum við með hvað mestan gjaldeyrisforða sem að nokkur þjóð býr yfir."
Og lýsti því í kjölfarið að Seðlabankinn ætti gjaldeyrisvaraforða fyrir 8-9 mánaða innflutningi á vörum og þjónustu án þess að fá nokkrar nýjar tekjur (þegar horft er framhjá gjaldeyrisþörf bankanna). Þannig að bankinn gæti tryggt allar þarfir ríkissjóðs og allan innflutning, án þess að nokkur útflutningur komi á móti, í níu mánuði. 
Var Gylfi kannski nær því að greina ástandið rétt en menn vildu meina þarna á föstudaginn? Maður hreinlega spyr sig. 

En það er allavega traustvekjandi að heyra frá Davíð að gjaldeyrisvaraforðinn dugi næstu níu mánuði fyrir innflutningi á vörum og þjónustu. Það þýðir á mannamáli að það er ekki fyrr en um mitt næsta sumar sem allt þrýtur. Ég bind nú vonir við að leiðin liggi upp á við fyrir það þannig að við þurfum engar áhyggjur að hafa... eða hvað?

1 ummæli:

  1. Hann mat ástandið rétt.

    Núna er Samson á leið í þrot.

    Hvar er fálkaorðan núna? Bara spyr svona!

    SvaraEyða