06 nóvember 2008

Bretarnir hafa rétt fyrir sér

Íslenskir stjórnmálamenn, allir sem einn, eru með buxurnar á hælunum. Ríkisstjórnin fer þar fremst í flokki eða eins og Jón Daníelsson prófessor í hagfræði við London School of economics orðaði það, að viðbrögð íslenskra stjórnvalda væru skólabókardæmi um hvernig ekki ætti að bregðast við efnahagskreppu.

Það hefur allt farið úrskeiðis hjá stjórnvöldum sem hugsast getur. Nýjasta útspilið er að deila 200 milljörðum af skatttekjum til fólks sem geymdi peningana sína í hávaxtasjóðum fremur en innlánsreikningum.

IMF treystir ekki núverandi stjórnvöldum á Íslandi fyrir láni, skiljanlega því þeir vita jafn vel og almenningur í landinu að stórnvöld eru með drulluna upp á bak.

Af hverju eru menn eins og Jón Daníels. ekki fengnir til ráðgjafar? Er það eðlilegt að hann sé á þeytingi um alla Evrópu sem ráðgjafi, með sérfræðiþekkingu á sviði efnahagshruns, en á sama tíma þykir hann ekki nógu góður ráðgjafi fyrir Geir og félaga?

Síðast en ekki síst þá er ég ansi hræddur um að Bretar hafi bara ótrúlega mikið til síns máls hvað varðar innistæður Icesave reikninga. Það getur ekki staðist nokkurn lagabálk (alþjóðlegan/evrópskan því lögunum hérna er bara breytt eins og hentar okkur) að ríkið pikki út einhverja hluti úr gamla Landsbankanum og setji yfir í þá nýja. Sérstaklega ekki þegar horft er til þess að þetta var sami banki á Íslandi og í Bretlandi, þá hljóta menn að sjá hversu óeðlilegt það er að ríkisstjórn Íslands skuli ákveða upp á sitt einsdæmi að sumir viðskiptavinir bankans skuli njóta innistæðutryggingar að fullu en aðrir enga eða lágmarks tryggingu.
Er þetta ekki nákvæmlega sama dæmið og með hluthafa Kaupþings? Umræðan núna snýst um hvort hluthöfum hafi verið mismunað, það sama og var gert við viðskiptavini gamla Landsbankans.

Nú þarf að henda út ÖLLUM alþingismönnum með tölu. Fá inn nýtt og ferskt fólk sem hefur hingað til ekki smitast af alþingisstörfum. Helst þurfa að vera nýir flokkar á bakvið þetta fólk. Þegar nýtt Alþingi hefur tekið við þarf það að hefjast handa við að hreinsa út úr öllum helstu stofnunum ríkisins, byrja á Seðlabankanum, FME, ráðuneytunum, bönkunum og svo framvegis. Á sama tíma færi fram rannsókn þar sem engum væri hlíft. Síðar, þegar tími gæfist, mætti rekja sig niður pýramídann og hreinsa til m.a. hjá Ríkislögreglustjóra og slíkum embættum. Ekkert á að standa eftir óhreyft.

Þið getið sagt að þetta sé óraunhæft. Það var líka óraunhæft fyrir tveimur mánuðum að við yrðum stödd þar sem við erum í dag. Því segi ég: því fyrr sem við hefjumst handa við hreingerningar því fyrr verður landið reist við á ný.

2 ummæli:

  1. Jón Daníelsson prófessor í hagfræði við London School of economics kann ekki einu sinni að segja S.

    SvaraEyða
  2. Ekki Gunni Bald. heldur. Samt er hann rakinn snillingur hann Gunni. Því hef ég fulla trú á Jóni líka:)

    SvaraEyða