13 nóvember 2008

Deilan um Evrópuaðild

Smá myndlíking til að útskýra í fáum orðum hvað deilan um Evrópuaðild og upptöku evrunnar er heimskuleg.

Jón og Gunna eiga bíl. Hann fer yfirleitt í gang á morgnanna og kemur þeim hjónum oftast nær á milli staða, þó kemur fyrir að bíllinn virki ekki sem skyldi. Bílnum hefur ekki verið haldið við af kunnáttu og er því orðinn eilítið lúnn. Vélin er vanstillt, eyðir meira bensíni en hún gerði og brennir mikilli olíu. Viðhald bílsins er nokkuð kostnaðarsamt. 
Hjónin taka eitt sinn ökuferð um bílasölu, sjá þar bíl álengdar sem lítur áægtlega út. Þau skoða bílínn þó aldrei nema úr nokkurri fjarlægð.
Þegar heim er komið upphefjast rökræður á milli hjónanna. Jón segir að bílinn á bílasölunni sé það sem þau þurfa. Þetta sé góður bíll, honum hafi verið vel viðhaldið og hann bili lítið. Síðast en ekki síst þá kosti hann ekki mjög mikið. Gunna segir hins vegar að þetta sé algjör drusla - meiri drusla en þau eru á núna. Á bílnum sé allt of hátt verð og hann ekki jafn vel með farinn og Jón vill meina. Síðast en ekki síst þá sé núverandi bíll þeirra meira en nógu góður, hann komi þeim á milli staða sem sé megintilgangur bíla.

Nú spyr ég: hvort þeirra hefur rétt fyrir sér? Er bíllinn á bílasölunni drusla eða eru þetta kostakjör sem eru í boði?

Ég get þulið upp lengri og ítarlegri sögu og haft spurningarnar fleiri. Niðurstaðan verður alltaf sú að spurningunum er ekki hægt að svara þar sem nægjanlegar forsendur eru ekki til staðar - því upplýsingar vantar. Þetta er nákvæmlega sama vitleysan og í umræðunni um Evrópuaðild og upptöku evru. Jón segir einu færu leiðina fyrir Ísland að sækja um Evrópuaðild og taka upp Evru á meðan Gunna segir íslensku krónuna vel duga og að það sé fínt að standa fyrir utan Evrópusambandið. Auk þess sem við töpum fullt af réttindum við inngönguna.
Niðurstaða fæst aldrei í málið nema að hjónin fari á bílasöluna og fái upplýsingar um bílinn, hvað hann kostar, hvernig ástandið á honum er o.s.frv. Sama á við um Evrópuumræðuna, hún verður alltaf bjöguð og ómöguleg á meðan þjóðin gengst ekki óskuldbundin til viðræðna og fær, í eitt skipti fyrir öll, upp á borðið hverjar kröfurnar verða, hvort við þurfum að fórna fiskinum o.s.frv.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli