12 nóvember 2008

Eiginfjárstaða mín er góð

Ég skulda lítið og á minna. En þegar efnahagsreikningur minn er tekinn saman kemur í ljós að eiginfjárstaða mín er mjög góð. Það liggur í því að ég á útistandandi greiða hjá nokkrum félögum fyrir hin ýmsu viðvik.

Einn greiða á ég svo stóran að ég tel að ég gæti fengið greiðaskuldara til að sleikja á mér tærnar. Greiðaskuldari er efnileg manneskja sem gæti, ef rétt er staðið að málum, orðið jafn fræg og rík og Eiður Smári (bara svo ég nefni einhvern frægan). Áætlaður kostnaður við að fá Eið til að sleikja á mér tærnar er á bilinu 50-500 milljónir króna. Til að fylgja góðum bókhaldsvenjum bókfæri ég því framtíðarvirði greiðans á 225 milljónir sem er millivegurinn. Því get ég sagt, með vísan í góðar bókhaldsvenjur að eiginfjárstaða mín sé góð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli