21 janúar 2009

Hrós til mótmælenda og lögreglu

Ég ákvað að sýna stuðning í verki og var viðstaddur mótmælin í gær. Tók þetta í tveimur skorpum, annars vegar yfir daginn og hins vegar um kvöldið og fram á nótt.
Niðurstaðan er lauslega sú að mótmæli í þessum anda er það sem þarf til að knýja fram breytingar. Ef slíkur kraftur verður í mótmælunum í nokkra daga í viðbót þá hafa stjórnvöld ekki aðra kosti en að gera eitthvað í málunum.

Þá verð ég að segja að mér fannst lögreglan standa sig með mestu ágætum. Auðvitað eru alltaf einhver atriði sem má gagnrýna en heilt yfir fannst mér lögreglan standa sig vel. Lögreglumennirnir á svæðinu voru á annað hundrað, örugglega misjafnir menn inn á milli. Það nákvæmlega sama á við um mótmælendurna. Ég varð vitni að því að menn löbbuðu upp að lögreglumönnum og létu þá heyra það, að því er virðist bara fyrir það eitt að vera lögreglumenn. Munnsöfnuðurinn var slíkur að það hefði ekki hver sem er getað staðið undir slíku.

Ég skil til dæmis ekki þegar fólk (t.d. Egill Helga) er að gagnrýna lögregluna fyrir að sprauta gasi á ljósmyndara! Eru ljósmyndarar allt í einu orðnir heilagir? Að mínu mati þarf að gera skýran greinamun á blaðaljósmyndurum og áhugaljósmyndurum. Þar sem ég var í marga klukkutíma alveg í fremstu víglínu í gær og sá mjög vel hvað var að gerast, tel ég mig alveg dómbæran á þetta. Málið er að þarna voru nokkur þúsund manns, þar á meðal voru mörg hundruð manns með myndavélar, margir hverjir sem höfðu sig alveg jafn mikið frami og aðrir mótmælendur. Finnst einhverjum eðlilegt að gera þá kröfu á lögregluna að hún mismuni fólki eftir því hvort það hafi áhuga á ljósmyndun eða ekki? Hvort fólk haldi á myndavél eða ekki? Mér finnst það alveg fráleit hugmynd. Það sama á að ganga yfir alla.

Ég hefði ekki farið að væla í fjölmiðlum ef ég hefði fengið gas í augun. Blessunarlega var ég nógu snöggur að snúa mér við og setja hettuna á höfuðið, en ég fann hvernig gusan kom á hnakkann á mér. Auðvitað hlýtur maður að geta búist við því að fá gas ef maður stendur í fremstu víglínu og hlýðir ekki fyrirmælum lögreglunnar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli