15 janúar 2009

Íslenska efnahagsundrið í boði Hannesar Hólmsteins?

Mér var bent á viðtal í Ísland í dag síðan í september 2007. Þar er rætt við stjórnmálafræðinginn og sagnfræðinginn Hannes H. Gissurarson sem hélt, degi síðar, erindi undir heitinu „The Icelandic Economic Miracle" eða Íslenska efnahagsundrið.
Að mínu mati er skylduáhorf á myndbandið. Flestir hafa vit á því að taka ekki of mikið mark á manninum en engu að síður þá er þetta nokkuð lýsandi fyrir blindnina sem ríkti í þjóðfélaginu.

Hannes hefur undanfarið m.a. kennt fjölmiðlum um hvernig fór, því þeir voru í eigu auðmanna sem notuðu þá í eigin þágu. Dæmi um þetta má finna á bloggi Hannesar t.d. hér , hér og hér.

Það er alveg ljóst að Hannes þarf að líta í eigin barm. Það er allt of mikil einföldun að kenna Jóni Ásgeiri um af því hann átti/á Fréttablaðið (án þess þó að draga úr þætti hans). Hannes var enginn eftirbátur þegar kom að því að dásama útrásina og snillingana sem stóðu á bakvið hana. Ekki nóg með það heldur fann hann út hvaðan peningarnir kæmu!Meðal uppáhaldssetninga minna í viðtalinu má nefna eftirfarandi.

Aðspurður um hvort um sé að ræða alvöru peninga eða bara loft:
Ég kemst að þeirri niðurstöðu að íslenska efnahagsundrið eigi sér alveg eðlilegar skýringar. Þessar skýringar eru fólgnar í því að það sem við gerðum var að við virkjuðum fjármagn sem áður lá dautt.

Hann ræður sér ekki fyrir spenningi og aðdáun þegar þessi orð falla:
Mig óraði ekki fyrir því að síðan með því að einkavæða bankana þá myndum við skyndilega fá nýja kynslóð ungra sprækra manna sem hafa gerbreytt Íslandi ... hugsið ykkur að bankakerfið hefur á milli sjö og tífaldast á þessum fjórum fimm árum og hugsaðu þér hvað það væri nú gaman ef við bara héldum áfram og gæfum í...

Ein vangavelt að lokum. Davíð var búinn að vara við „efnahagsundrinu“ frá árinu 2006 að sögn Hannesar . Erindi Hannesar var í september 2007. Ætli hann hafi ekki hlustað á Davíð?

2 ummæli: