27 febrúar 2009

Hvert er fagnaðarefnið?

Hvert er fagnaðarefnið?

Ákvörðun Steingrím J. Sigfússonar sjávarútvegsráðherra, um að hvalveiðar skuli hefjast á vordögum, er ánægjuleg í augum sumra bæjarbúa á Húsavík. Meðal annars kvaðst Gunnlaugur Stefánsson, forseti sveitarsjórnar Norðurþings, fagna ákvörðuninni í svæðisútvarpinu á dögunum. Sé ánægja forsetans, og þeirra sem styðja ákvörðunina, sett í samhengi við umræður síðustu ára varðandi uppbyggingu álbræðslu við Húsavík, þá kemur í ljós sérkennileg þversögn.

Ein helstu rökin fyrir álbræðslu eru að það þurfi að skapa störf í bænum til að styrkja stoðir bæjarins og sveitafélagsins alls. Þau rök eru góð og gild og ég leyfi mér að efast um að það sé til sá maður sem telur ekki þörf á atvinnusköpun á svæðinu, hvort sem um er að ræða álbræðslu eða „eitthvað annað“. Rök gegn álveri hafa meðal annars verið blásin af á þeim forsendum að þenslan hafi aldrei náð til Húsavíkur, að það sé ekkert annað í boði og þar fram eftir götunum. Eða með öðrum orðum þá hafa fæst rök gegn álbræðslum fengið nokkurn hljómgrunn hjá álbræðslusinnum því röðin var komin að Húsavík. Við áttum að fá forgang fram yfir Helguvík því þenslan væri öll fyrir sunnan og svona mætti lengi telja.

Hins vegar þegar kemur að hvalveiðum þá gild ekki sömu rök. Það er alveg ljóst að fyrirhugaðar hvalveiðar munu ekki skapa Húsavík nokkrar einustu tekjur. Hvalirnir verða unnir í Hvalfirði og fluttir þaðan út og hluti seldur til verslana á Íslandi. Hvalaskoðun hefur á hinn bóginn töluverð efnahagsleg áhrif á Húsavík. Samkvæmt rannsókn Þekkingarseturs Þingeyinga, sem undirritaður vann ásamt Rannveigu Guðmundsdóttur ferðamálafræðingi, eyddu hvalaskoðunarferðamenn að lágmarki 650 milljónum á Húsavík sumarið 2008 og í þeirri starfsemi voru yfir 30 störf á ársgrundvelli. Þá var heildarfjöldi starfa við ferðaþjónustu meira en 65 störf árið 2008. Það er því alveg ljóst að sú afþreying að bjóða upp á hvalaskoðun frá Húsavík hefur töluverð efnahagsleg áhrif á efnahagskerfi bæjarins. Komi sami fjöldi ferðamanna í hvalaskoðun við Húsvík næstkomandi sumar og gengi krónunnar verður enn þá veikt, sem flest bendir til, þá má gera ráð fyrir að tekju bæjarfélagsins á þessu ári verði á bilinu 1,1 til 1,5 milljarðar króna, eftir því hvert gengið verður. (Skýrsluna má lesa á www.hac.is undir útgefið efni)

Hafa hvalveiðar neikvæð áhrif á hvalaskoðun? Ég veit það því miður ekki. Ég veit þó að hvalveiðar munu ekki hafa nein jákvæð efnahagsleg áhrif á Húsavík. Þá standa eftir tveir möguleikar, annars vegar að hvalveiðar og hvalaskoðun fari fullkomnlega saman og því verður staða Húsavíkur óbreytt. Hins vegar að hvalaskoðun hafi neikvæð áhrif á hvalaskoðun og þá mun bæjarfélagið í heild tapa á þessari ákvörðun. Bærinn og bæjarbúar munu því í besta falli halda óbreyttu ástandi hvað þetta varðar.

Því spyr ég: hvert er fagnaðarefnið?

Andri Valur Ívarsson
Hagfræðinemi og HúsvíkingurGreinin birtist í Skarpi - héraðsfréttablaði þingeyinga þann 27.febrúar 2009.

6 ummæli:

 1. Hvort ertu að tala um álver eða álbræðslu í greininni? Segir bæði.

  Varðandi hvalveiðar þá er mér alveg sama hvort að hvalur sé veiddur eða ekki en er hins vegar ekkert sérstaklega fylgjandi því. Eina sem mér finnst svo furðulegt við þessa umræðu það er hvað þetta er mikið hitamál hjá fólki að veiða hval.

  Fattiddiggi.

  SvaraEyða
 2. Þetta er klárlega prentvillupúkinn margfrægi:)

  Deilur um hvalveiðar eru á svo mörgum misjöfnum forsendum. Sumir telja þetta gáfaðar og fallegar skepnur sem kveljast og eru þess vegna á móti.

  Fyrir mér er það alveg ljóst að íslendingar eiga fullan rétt til hvalveiða. Spurningin er hins vegar sú hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt. Þá þarf að m.a. byrja á að greina hvort hvalveiðar hafi áhrif á túrisma og hvort veiðarnar hafi áhrif á viðskipti okkar við aðrar þjóðir.

  Ég tel að það ætti að byrja á því að rannsaka þessa hluti og taka síðan ákvörðun út frá þeim niðurstöðum. Ekki að ana út í veiðarnar "af því það er okkar réttur" og sjá síðan bara til.
  Það að ferðamönnum hafi fjölgað undanfarin ár eru engin rök fyrir því að hvalveiðar hafi engin áhrif.

  SvaraEyða
 3. Já. Er sammála því. Finnst þetta bara svo stórfurðulegt hitamál. Hlustaði á útvarpið um daginn og þáttarstjórnendur sögðu skoðun sína,þ.e. að þeir væru hlynntir hvalveiðum og síminn opnaður í kjölfarið. Inn rigndi svoleiðis fúkyrðum og fólk var alveg brjálað við þá.

  Þarf greinilega að kynna mér þetta betur:)

  Eigum við þá ekki von á Sea Shepard?

  SvaraEyða
 4. Það eru alveg ótrúlega margar ástæður sem fólk hefur fyrir því að vera gegn hvalveiðum. Þess vegna ber að varast að setja alla andstæðinga hvalveiða undir sama hatt.

  Per se er ég ekki á móti hvalveiðum frekar en ég er á móti álbræðslum. Ég samþykki bara ekki hvaða framkvæmd sem er. Er t.d. mikið hlynntari álbræðslu á Bakka en ég var gagnvart álverinu fyrir austan eða er gegn Helguvík. Sé samhengið rétt þá þykir mér þetta í lagi.

  Ef það verður sýnt fram á að hvalveiðar hafi ekki áhrif á ferðamennsku hér við land og sölu á öðrum sjávarafurðum (tel eðlilegra að sýna fram á það frekar en hinir sýni fram á að þetta hafi áhrif) þá gæti ég alveg fallist á að hvalveiðar yrðu stundaðar hér við land. Ef gefinn yrði út ákveðinn kvóti sem yrði boðinn upp og allir hefðu kost á að kaupa kvóta, þá hefðu hvalaskoðunarfyrirtækin, Sea Shepherd, PETA og aðrir sem vilja, kost á að kaupa kvóta og nýta hann ekki ef þau telja mesta verðmætið fólgi í því.
  Einnig þyrfti að stýra veiðunum á þann hátt að landhelgin yrði hólfuð niður og einungis mætti veiða á ákveðnum svæðum og jafnvel fyrir utan einhverja ákveðna línu.

  Ef einhver svona leið yrði farin yrði erfiðara að vera á móti hvalveiðum.

  SvaraEyða
 5. Er miðasala í hvalaskoðun inní þessari tölu hjá þer, þ,e 650 milljónir.

  Og hvenær varð þetta orð til, álbræðsla ?

  Kv Höddi.

  SvaraEyða
 6. Miðasalan er inn í 650 milljónunum. Áætluðum hana 129 milljónir ef ég man rétt.

  Á ensku heitir þetta aluminium smelter. Aluminium er ál og smelter þýðir bræðsla (málmbræðsla) samkvæmt öllum orðabókum.

  SvaraEyða