11 febrúar 2009

N1 í ruglinu - er allt leyfilegt?

N1, áður Essó, birti heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu í morgun. Þar er sagt frá því hvernig Jóhann og Guðlaug ætla að spara 98.415 krónur með því að versla einungis við N1 næstu 12 mánuðina. Sparnaðinum ætla þau að ná fram með því að versla allt eldsneyti og rekstrarvörur hjá N1 og greiða fyrir með viðskiptakorti eða greiðslulykli. Í auglýsingunni er birt lið fyrir lið hvernig sparnaðurinn næst. Ég hef sitthvað við það að athuga.

Þau hjónin eiga jeppa og meðalstóran fólksbíl, segir í auglýsingunni og gert er ráð fyrir að endsneytiskostnaður beggja bílanna sé 866.400 krónur. Miðað við 20 þúsund ekna kílómetra á ári og jeppa og fólksbíl með stærstu vélum, báðir með bensínvélar, þá næ ég kostnaðinum ekki upp í þessa upphæð í reiknivélinni á vef orkuseturs
Ford F150 amerískur pallbíll og Benz E500 ná ekki 800 þúsund krónum miðað við 20 þúsund kílómetra keyrslu og meðalverð N1 á bensíni og dísel í dag.
Mitt sparnaðarráð væri því að kaupa sér eyðsluminni bíla og versla bensínið þar sem það er ódýrast í hvert sinn. Til dæmis mætti fjárfesta í Toyotu Rav4 og Mözdu 3, báðir sjálfskiptir, bensín og eyðsla m.v. 20 þús. km. á ári væri rétt innan við 500 þúsund á ári eða nærri 400 þúsund krónum lægri en í auglýsingunni.

Bílaþvottur upp á 27 þúsund eða 27% af heildarsparnaðinum. Ef maður er að spara á annað borð getur maður ekki þrifið bílinn sjálfur?

Rúðuþurrkur og rúðuvökvi á 23 þúsund! Ég myndi nota eitthvað annað en XO koníak á rúðuna. Hægt að fá ágætis rúðupiss í bónus og engin ástæða til að skipta um rúðuþurrku oft í mánuði. Minnir að það sé mælst til þess að skipta tvisvar á ári.

Svo er tíndur til allskonar kostnaður eins og dekkjahótel á 16.100 og þegar uppi er staðið eyða þau hjónin 1.322.500 krónum í rekstrarkostnað bifreiðanna tveggja á ári. Þá vantar að reikna með rýrnun, bifreiðaskoðun, bifreiðagjöld, tryggingar, bílastæðakostnað, viðhald og viðgerðir, og vaxtakostnað svo eitthvað sé nefnt. Þegar það allt hefur bæst við er ekki óvarlegt að áætla að heildarupphæðin sé komin eitthvað á þriðju milljón króna. Þetta miðast að sjálfsögðu við útborguð laun og við þurfum því að teygja þetta á fimmtu milljón í heildarlaun til að sjá fyrir tveimur bílum í dag. Er það virkilega raunveruleikinn?

Ég spyr hins vegar hvort fyrirtæki eins og N1 geti leyft sér að auglýsa hvaða vitleysu sem er? Er einhver þarna úti sem telur þetta eðlilega framsetningu á auglýsingu? Nú vil ég fá svör...

Hér má síðan sjá auglýsinguna: 
smella til að stækka

1 ummæli:

  1. Þetta virðist vera öfgakennd auglýsing, og beinlínis asnaleg ef maður spáir í innihaldið. Persónulega þekki ég ekki auglýsingamarkaðinn, en þeir hljóta að hafa farið aðeins fram úr sér í þessari samt...

    EB

    SvaraEyða