30 mars 2009

Stjórnmálin

  • Ég þykist sjá þversögn í því að halda því fram að kynslóðaskipti og breytingar hafi átt sér stað innan sjálfstæðisflokks. Það sjá allir viti bornir menn að Davíð er leiðtogi flokksins, sama hvaða andlit flokkurinn kýs að sýna út á við.

  • Ég hef lítið tjáð mig um þessar hugmyndir um 20% niðurskurðinn, sem hefur verið svo mikið í umræðunni. Aðallega því ég hef ekki nennt að leggjast í útreikninga og kynna mér þetta nægjanlega vel til að geta mótað mér mína eigin skoðun. Upphaflega hljómaði hugmyndin frekar vafasöm í mín eyru. Hún gerir það enn þó ég hafi lesið ýmisleg rök með og á móti. Það sem ég á erfiðast með að fallast á er sú hugmynd að þetta kosti hreinlega ekki neitt og að það græði bara allir á því. Er það ekki svolítið Gamla Ísland að halda því fram að menn geti fellt niður skuldir og að það þurfi enginn að borga kostnaðinn við það? Að það græði hreinlega allir á því?

  • Merkilegur þykir mér áróðurinn frá Sjálfstæðisflokknum varðandi skattahækkanir. Nú tala sjálfstæðismenn eins og það sé engin framtíð fyrir Ísland ef þeir komast ekki til valda á ný. Við taki skattahækkanir sem eru víst það alversta sem gerist.
    Það eru örfáar vikur síðan að sjálfstæðisflokkurinn, ásamt samfylkingunni, hækkaði skatta. Af hverju? Jú því Íslenska ríkið skuldar 1.700 milljarða króna (áætlaðar skuldir í lok þessa árs) og við því þarf að bregðast. Það er alveg ljóst að það þarf að skera niður heilan helling í ríkisfjármálunum, sama hvaða flokkar komast til valda það verður að gerast. Í mínum huga þá er þetta bara orðhengilsháttur hjá Sjálfstæðismönnum. Ef maður þarf áfram að borga sömu upphæð í skatta (að því gefnu að skatthlutfall og laun haldist óbreytt) en fær í staðinn töluvert mikið minni og verri þjónustu vegna niðurskurða er þá ekki verið að hækka álagninuna á borgarana? Hvað er svona mikið betra við það en að skattar hækki? Fyrir mér er þetta ekki flókið. Fyrir utan það að þessir vinstriflokkar hafa ávallt talað um að hækka skatta á þá sem mega við því, þ.e. þá tekjuhæstu. Það vita það jú allir sem vilja að skattbyrði þeirra sem minnst hafa á milli handanna hefur aukist á sama tíma og skattbyrðin hefur minnkað á þá sem hafa hærri tekjur. Þetta hefur margsinnis verið sýnt fram á með útreikningum. 

1 ummæli:

  1. Finnum bara þessa helvítis olíu og störtum þessu svalli aftur.

    SvaraEyða