28 apríl 2009

Heiðurslaun - mín skoðun

Nokkur umræða hefur verið síðustu daga um heiðurslaun Þráins Bertelssonar. Umræðan hófst skömmu fyrir kosningar þegar menn fóru að velta því fyrir sér hvort Þráinn myndi halda áfram að þiggja greiðslurnar fengi hann kosningu.Nú hefur Þráinn ákveðið sig og ætlar að halda áfram að þiggja heiðursgreiðslur ásamt því að fá full laun sem þingmaður.
Hann rökstyður ákvörðunina meðal annars með því að þetta sé æðsta viðurkenning sem listamanni hlotnast, að ráðherrar þiggi ráðherralaun ofan á þingfararkaup og að sveitastjórnarmenn sem sitji á þingi þiggi laun úr heimasveit. Þá nefnir hann að sumir þingmenn fái laun annarstaðar frá, t.d. bændur sem sitja á þingi og fái jafnhliða tekjur af búum sínum!

Mín skoðun er einföld. Þráinn ætti að afþakka þessar greiðslur á meðan hann fær full laun sem þingmaður. Það er ekki upphæðin sem skiptir máli að mínu mati, sem er um 150 þúsund krónur á mánuði að sögn Þráins, heldur er það siðferðið. Mér finnst siðferðislega rangt að þiggja fé frá hinu opinbera, á sama tíma og maður er í fullri vinnu hjá ríkinu og þiggur laun fyrir.

Það má vel taka undir það með Þráni að þetta sé æðsta viðurkenning sem listamanni hlotnast en viðurkenningin hlýtur samt aðallega að felast í því að vera útnefndur heiðurslaunahafi. Með öðrum orðum þá þykir mér viðurkenningin engu minni þó listamaðurinn afsali sér greiðslum um tíma, á meðan sá hinn sami þiggur full laun frá hinu opinbera. Mér þætti sá hinn sami maður að meiri fyrir vikið.

Svo má böl bæta sagði einhverstaðar. Þráinn telur sitt böl bættara með því að benda á að Þorgerður Katrín hafi fengið kúlulán hjá Kaupþingi og að löng hefð sé fyrir því að þingmenn þiggi fleiri greiðslur en þingfararkaup eitt og sér. Ég er býsna hræddur um að þarna hafi Þráinn glatað góðu tækifæri til að koma sterkur inn á þing og vera búinn að vinna sér inn nokkur prik. Þess í stað gengur hann særður til þings.

Þá má ekki gleyma því að Þráinn hefur verið mjög duglegur við að gagnrýna EFTIRLAUNAÓSÓMANN, eins og hann kallar þetta og skrifar með hástöfum. Mætti ekki nota rök Þráins og segja að þarna væri verið að "verðlauna" þingmenn og ráðherra fyrir gott starf? (Það má vera alveg ljóst að eftirlaunafrumvarpið og heiðurslaun Þráins eru ekki sambærileg mál á nokkurn hátt - er einungis að vísa í hvernig menn geta "rökstutt" mál sitt).


Síðast en ekki síst þá er hann þingmaður Borgarahreyfingarinnar, hreyfingar sem segist standa fyrir breytingar, Nýja Ísland eins og stundum hefur verið talað um. Breytingar á allri umgjörð, hefðum og venjum sem eru tilkomnar í íslenskum stjórnmálum. Ekki veitir af en byrjun Þráins lofar ekki góðu. Hann ætlar að halda sínu því þetta er bara svona, bendir í allar áttir og segir að hinir og þessir séu að gera hitt og þetta.

Þó að þessi umræða snúist aðallega um réttmæti greiðslnanna, frekar en upphæð þeirra, þá má ég til með að minnast á það að í tillögu til þingsályktunar um heiðurslaun listamanna eru ein rökin fyrir þessum greiðslum þau að listamenn borgi lítið eða ekkert í lífeyrissjóði og eigi því á hættu að eiga um sárt að binda á efri árum. Komi þessar greiðslur því ýmsu öldruðu listafólki einkar vel. Það er ánægjulegt að vita að Þráinn hafi tryggt sér örlítið skotsilfur til viðbótar.

1 ummæli:

  1. Eg hef natturulega ekki fylgst naegilega vel med til ad eg geti verid ad gefa mjog upplysta skodun a thessu mali. Einhverstadar las eg ad thessi heidurslaun vaeru fyrir adur unnin storf svo thad vaeru rokin fyrir thvi ad hann aetti ekki ad afthakka thau.

    EN fljott a litid synist mer thetta bara undirstrika ad um leid og folk er komid "rettum" megin vid bordid breytist allt....

    Kv. Heidar

    SvaraEyða