23 júní 2009

Mótorhjólamenn

Nei ég ætla ekki að fara að segja eitthvað ljótt um þá. Eflaust má margt ljótt segja um suma þeirra eins og gengur og gerist.

Á mánudaginn var ég að hlusta á Bylgjuna á leið til vinnu. Stjórnendur voru að leyfa hlustendum að láta móðan mása. Einn hlustandinn kvartaði undan mótorhjólamönnum. Hann sagði að það væri gjörsamlega óþolandi þegar það væri bílaröð stopp á rauðu ljósi, að þá færu mótorhjólamennirnir gjarnan á milli bílanna og kæmu sér fyrir fremst í röðinni. Þetta væri gjörsamlega óþolandi frekja í þeim og ég eitthvað í þá áttina. 

Þetta er frekar algengt viðhorf hjá fólki, viðhorf sem ég skil ekki. Þetta viðhorf hlýtur að byggjast á fordómum og vanþekkingu og þeirri kennd homo sapiens að óttast það að hini hafi það betra en þú á þinn kostnað. 

Þetta segi ég því þegar maður horfir á þetta hlutlausum augum, þá er augljóst að í þessari stöðu þá hagnast allir. Í stað þess að taka pláss í röðinni, þá fara hjólin fremst, eru ekki fyrir neinum og taka hraðar af stað þannig að þau tefja engan. Það leiðir til þess að röðin er styttri en hún væri annars. Niðurstaðan er því sú að einhverjir hagnast á þessu (þ.e. þeir sem hefðu ella verið fyrir aftan mótorhjólið í röðinni) og einhverjir búa við óbreytta stöðu (þ.e. þeir komast ekki framar í röðina né tefjast á nokkurn hátt). 

Ég bið fólk að hafa þetta í huga, næst þegar það lætur þetta fara í taugarnar á sér er það bíður í röð í rauðu ljósi. 

Svo það sé á hreinu þá hef ég ekki setið á mótorhjóli á ferð síðan ég keyrði um á Hondu MT 50 á Húsavík '96 þegar ég var 15 ára að verða 16. Þar sem engin rauð ljós voru (né eru) á Húsavík reyndi aldrei á þetta þar. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli