11 júní 2009

Nokkrir punktar

Það eru nokkrir punktar sem mig langar að skrásetja hérna. Þeir eru flestir um efnahagsástandið.


 • Ég fagna þeirri ákvörðun að stjórnvöld ætli að lækka fæðingaorlofsgreiðslur. Mér finnst fráleitt, eins og efnahagsástandið er, að borga fólki upp undir hálfa miljón fyrir að vera heima með barnið sitt. Þetta jafngildir hátt í fjórföldum atvinnuleysisbótum (3,5 x grunnbætur). Einnig dregur þetta úr útgjöldum ríkissjóðs en eykur ekki álögur á þjóðina eins og skattar. Þó vildi ég sjá þessa aðgerð koma á eftir öðrum aðgerðum, þ.e. að mér finnst þetta ekki vera algjör forgangur. Myndi t.d. vilja sjá 80% niðurskurð í utanríkisþjónustunni osfrv.*

 • Það gleymist gjarnan í allri umræðunni um að fyrirtæjum sé að blæða út, að mörg þessara fyrirtækja voru hreinlega illa rekin. Sem dæmi fyrirtæki með allar sínar tekjur í ISK og mest allar sínar skuldir í erlendri mynt og að auki töluverðan hluta kostnaðar í erlendri mynt. Þetta sama fyrirtæki hefur greitt út nokkuð veglegan arð síðustu ár til eigenda sinna, sem gjarnan eru líka æðstu stjórnendur og með rífleg laun þar. Þegar á bjátar er fyrirtækið um leið komið í stökustu vandræði. Brugðist er við með því að segja upp og fækka neðst í píramídanum osfrv. Það var ekki búið að leggja fyrir eina einustu krónu til að eiga þegar niðursveifla kæmi í hagkerfið sem allir vissu þó að kæmi (það bjóst enginn við slíku hruni en það breytir því ekki að hugsunarhátturinn var oft sá að hirða sem mest út á meðan hægt væri, hitt væri seinni tíma vandamál).
  Hvað ætli þessi lýsing, sem er ekki byggð á ímyndun minni einni saman, eigi við um mörg fyrirtæki? Kom einhver stjórnandi í fréttunum um daginn og bar sig illa. Fjölskyldufyrirtækið var komið í þrot eftir margra áratuga rekstur. Hvernig tekst mönnum að klúðra slíkum rekstri á nokkrum mánuðum? Þetta sjónarmið má ekki gleymast í umræðunni og eins er mikilvægt að stjórnvöld séu ekki að setja of mikinn fókus á fyrirtæki sem voru illa rekin, og virðist vera nóg af, heldur leyfi þeim að fara á hliðina. Þannig opnast einnig tækifæri fyrir aðra sem geta hugsanlega rekið sambærilegt fyrirtæki betur.

 • Er einhver þarna úti sem er ekki búinn að átta sig á því hversu mikill lýðskrumari Sigmundur Davíð er? Hagfræðimenntaður maður (þó það sé skipulagshagfræði þá hlýtur maður að læra einhverja grunnkúrsa í hagfræði er það ekki?) kemur fram og gagnrýnir hversu háa vexti ríkið þurfi að greiða af Icesave láninu og ber það saman við stýrivexti seðlabanka landanna. Þetta er náttúrlega út í hött og alveg er ég sannfærður um það að maðurinn er að tala gegn betri vitund; hann er að villa um fyrir kjósendum. Það leiðir okkur að þeirri niðurstöðu að hann er ekki hótinu skárri en þeir sem fyrir voru á hinu háa Alþingi. Ef eitthvað hefði mátt missa sín þá eru það þingmenn sem villa viljandi um fyrir kjósendum, vitandi betur. 
* Ég rak augun í það að fjölmiðlum ber ekki saman um upphæðirnar. Fréttablaðið talar um 480 þúsund, Mbl.is um 420 þúsund. Skv. heimasíðu sjóðsins er hámarkið 400 þúsund sem breytir forsendum mínum dálítið.
Læt þetta duga í bili. Fleiri punktar síðar. 

6 ummæli:

 1. Er semsagt búið að ákveða að lækka allar fæðingarorlofsgreiðslur eða bara þær hæstu? Og ertu þá að tala um hálfa mill. á mánuði? Ég tók reyndar 10 mánaða orlof en er með skitinn 88 þúsund kall í vasann á mánuði sem mér finnst ekki neitt... sérstaklega núna þegar allt hefur hækkað upp úr öllu valdi.

  SvaraEyða
 2. Það er ekki búið að útfæra þetta né tilkynna eftir því sem ég kemst næst. En hins vegar snýst þetta um hámarkið en ekki yfir alla heildina. Þetta er tekjutengt og í dag eru hámarks greiðslur um eða yfir 400 þúsund (Fréttablaðið segir 480 þús, Mbl segir 420 þús, skv. heimasíðu sjóðsins sýnist mér þetta vera 400 þús). Eins fjölmiðlar fjalla um þetta þá mun "þakið" lækka í 350 þús eða eitthvað álíka.

  SvaraEyða
 3. Ég fæ ofnæmiseinkenni þegar lýðskrumarinn Sigmundur Davíð opnar munninn - eða birtist á skjánum.
  Sorglegasti stjórnmálamaður sem hefur lengi sést.

  SvaraEyða
 4. Í þessari umræðu síðustu misseri þykir mér orðið lýðskrumari ótrúlega ofnotað.

  Hins vegar er ég sammála þér um fæðingarorlofsgreiðslurnar. Á að skera fæðingarorlof karlmanna niður í mánuð.

  En með fyrirtækin. Er ekki nógu vel inn í þessari hagfræði né viðskiptafræði til að ná fyllilega upp í þetta. En tengist þetta ekki eitthvað lánum sem hafa gengið ágætlega en var svo skrúfað fyrir af bönkunum eftir hrunið?

  Spyr sá sem ekki veit.

  SvaraEyða
 5. Þá vel vera að orðið sé ofnotað, en ég held að það sé býsna oft grundvöllur fyrir því. Skv. orðabók er lýðskrumari: "stjórnmálamaður sem tekur einungis afstöðu eftir því hvernig vindur blæs meðal almennings" eða "stjórnmálamaður sem aflar sér fylgis með því að höfða til lægstu hvata kjósenda".
  Svo verða menn bara að gera upp við sig hvenær þetta á við og hvenær ekki:)

  Þetta tengist því að fyrirtæki tóku lán í erlendri mynt af því að það var hagstæðara á þeim tíma, lægri vextir og hagstætt gengi.
  Ég ætla ekki að vera svo grófur að segja það fáránlegt og heimsku að gera slíkt. Þetta er skiljanlegt að sumu leyti, sérstaklega þar sem stöðugleikinn hér heima var lítill, löngu fyrir hrun.
  Það sem ég er aðallega að gagnrýna er að fyrirtæki voru að skuldsetja sig allt of mikið (eins og þjóðin) og einblíndu á stundargróðann.
  Það er hægt að nefna heilmörg dæmi, þetta var hugsanlega bara hluti af allri geðveikinni án þess að það sé nokkur afsökun.

  Það er gjarnan talað um að einstaklingar eigi að leggja til hliðar, spara, bæði fyrir elli árunum þegar tekjurnar minnka og eins til að geta brugðist við óvæntum útgjöldum. Maður þarf ekki annað en að detta á trýnið og brjóta nokkrar tennur til að lenda í miklum útgjöldum, þá væri gott að eiga varasjóð.
  Það sama hlýtur að gilda um fyrirtæki. Það stendur ekki í neinni kennslubók sem ég hef lesið að það þurfi að kreista hverja einustu krónu út úr fyrirtækinu í formi arðs og að fyrirtæki megi helst ekki eiga neina varasjóði.
  Þetta er eitthvað sem er að setja mörg fyrirtæki á hliðina, fyrirtæki sem hefðu hugsanlega getað þraukað í gegnum þessa erfiðleika.
  Svo ég tali nú ekki um hvað fræðin segja um markaðsstarf á samdráttartímum. Þá skapast tækifærin.

  SvaraEyða
 6. Já. Sammála því. En af skilgreiningunni að dæma, allavega fyrri parti, þá fellur popúlismi undir lýðskrum og þá eru 90% af þingmönnunum lýðskrumarar! Össur Skarp hugsanlega sá versti, miðað við Álver á Bakka-umræðuna.

  En já, sammála. Menn voru ekki mikið að spá í sjö árum mögrum.

  SvaraEyða