29 janúar 2010

Stúdentapólitík

Nú styttist í árlegar kosningar í Háskóla Íslands. Sem fyrr eru það stúdentahreyfingarnar Vaka og Röskva sem keppa um hylli námsmanna (ég leyfi mér að sleppa því að nefna jaðarhreyfingar á borð við Öskru ofl. í þessari umfjöllun). Ég er búinn að vera í nokkur ár í HÍ og enn er margt sem ég hef ekki áttað mig almennilega á varðandi "stjórnmálin" í skólanum.
Það vita það allir að Röskva er athvarf vinstri sinnaðra stúdenta á meðan Vaka er athvarf þeirra sem koma frá hægri. Af hverju Vökuliðum er svona mikið í mun að stúdentar viti ekki af þessarri tengingu er mér fyrirmunað að skilja. Eiga stúdentar við Háskóla Íslands virkilega að trúa því að fyrir einskæra tilviljun hafi að meðaltali verið 4-6 einstaklingar úr ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins meðal efstu manna á lista Röskvu? Í ár eru það fjórir af fimm efstu frambjóðendum Vöku sem starfa eða hafa starfað innan ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins.
Tilviljun? Auðvitað ekki, það er bara fásinna að halda öðru fram.


Nú held ég því ekki fram að tengingin hjá Röskvu sé eitthvað minni í hina áttina, síður en svo. Það er bara mín tilfinning að Röskvuliðar leggja ekki svona gríðarlega mikla áherslu á að hinn listinn sé nátengdur stjórnmálaöflum, eins og Vökuliðar gera.
Sem dæmi um þetta má nefna að snemma í vikunni kom oddviti Vöku og hélt smá tölu yfir hópi sem ég var í áður en kennsla hófst. Hann hafði tvennt fram að færa. Annars vegar að Röskva væri dótturfélag Samfylkingarinnar og hins vegar að Vökuliðar hefðu barist fyrir, og fengið í gegn, að gömul próf yrðu gerð aðgengileg öllum. Hann tók hins vegar ekki fram að hann sjálfur hefði starfað innan stjórnar ungar sjálfstæðismanna í Garðabæ, allavega á seinasta ári. Eins misfórst að taka það fram það var hvorki í fyrra né hittifyrra sem prófasafnið kom til. Það eru fjölda mörg ár síðan þetta varð að veruleika, hveru mörg þau eru veit ég ekki en það hefur líklega verið í kringum seinustu aldamót. Verkið er gott en maður spyr sig hversu lengi er hægt að stæra sig af góðu verki?


Síðast en ekki síst þá hef ég aldrei skilið hvernig menn finna pláss fyrir hægri og vinstri skoðanir í þessu starfi. Það hafa jú allir það sama að leiðarljósi, að bæta hag stúdenta (OK alls ekki allir kannski en allavega þeir sem eru ekki þarna til að huga að ferilskránni sinni). Væri ekki nær að hreyfingarnar einbeittu sér að því að forgagnsraða sínum baráttumálum (sem eru jú að megninu til þau sömu) í stað þess að eyða tíma og krafti í að tengja hinn flokkinn við einhver stjórnmálaöfl?
Til að gæta sanngirnis þá má segja að það er eitt og eitt baráttumál sem hefur mismunandi niðurstöðu eftir því hvort maður líti á það frá hægri eða frá vinstri. Sem dæmi má nefna skólagjöld. Þeir einu sem ég hef heyrt samþykka skólagjöldum eru hægrimenn.


Niðurstaða mín er því sú að stúdentapólitík er að mörgu leyti sandkassaleikur. Það er í sjálfu sér ekkert svo slæmt, því það ætti að vera ágætis undirbúningur fyrir þá sem stefna hærra og hyggjast verða þingmenn. Það vita jú allir að Alþingi er stærsti sandkassinn á Íslandi í dag.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli