28 febrúar 2010

Eðlileg framsetning?

Íslenskir bændur skapa þjóðinni um 100 milljónir króna í verðmætum á hverjum einasta degi. Á þetta benti Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, á Búnaðarþingi sem hófst í dag. Þá benti hann einnig á að ef ekki væri fyrir landbúnað á Íslandi þá þyrfti þjóðin að verja þessum 100 milljónum í kaup á erlendum vörum sem yrði að sjálfsögðu greitt í erlendum gjaldeyri.

Ég ætla ekki að vefengja þessar tölur, þær eru eflaust réttar. Það er framsetning talnanna sem pirrar mig.
Gefum okkur það að þessar tölur séu réttar og árið 2009 hafi hvern einasta dag verið skapaðar vörur að verðmæti 100 milljóna króna. Þá langar mig að benda á að árið 2009 greiddu skattborgarar rúmlega 5.600 milljónir í niðurgreiðslu/styrki vegna mjólkurframleiðslu eða sem jafngildir rúmlega 15 milljónum daglega. Sama ár voru greiddar rúmlega 4.100 milljónir af skattpeningum vegna sauðfjárframleiðslu. Það jafngildir rúmlega 11 milljónum á dag. Bændasamtök Íslands fá nærri 620 milljónir árlega eða nærri 1,7 milljón á dag.
Þetta eru nokkur dæmi og líklega stærstu útgjöld skattborgara til landbúnaðarins í formi niðurgreiðslna. Þó er fjöldinn allur af sjóðum, styrkjum og niðurgreiðslum sem ég hreinlega nenni ekki að telja upp.

Með því að leggja þessa styrki saman fást nærri 30 milljónir á dag. Með því að leggja alla styrki frá skattborgurum má gera ráð fyrir að þessi tala sé nálægt 40 milljónum. Þegar þær eru dregnar frá fyrrnefndum 100 milljónum er niðurstaðan 60  milljónir. Það er allt önnur tala og talsvert lægri en hún lítur bara ekki jafn vel út!

Burt séð frá því hver þessi upphæð er, þá þykir mér það leiðinleg framsetning að setja þetta þannig fram að þarna sé verið að spara einhvern gjaldeyri, eins og Haraldur gerir. Þetta er alveg jafn heimskuleg framsetning og var í fréttunum um daginn, þar sem fullyrt var að Ístak væri að spara ríkinu töluverðan pening með því að vera með íslendinga í vinnu erlendis því þá þyrfti ekki að greiða þeim atvinnuleysisbætur. Í sjálfu sér er ekki hægt að segja að það sé röng fullyrðing en heimskuleg er hún. Það sama er jú hægt að segja um öll fyrirtæki á Íslandi sem hafa einhverja starfsmenn í vinnu.

Ég ætla til dæmis ekki að leyfa mér að fullyrða að ég sé að spara hinu opinbera fjármuni með því að vera ekki í fangelsi. Það er jú dýrt að halda úti fangelsum og okkur virðist vera fyrirmunað að gera það almennilega. En það að einhver tiltekinn einstaklingur sé ekki í fangelsi er ekki sparnaður fyrir einn né neinn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli