26 febrúar 2010

Framsóknardrama

Einhverra hluta vegna ákváðu dætur Gunnar Birgissonar og tengdasynir að ganga í framsóknarflokkinn! Það eitt að ganga í þann flokk er óskiljanleg ákvörðun. Við það bætist að þetta eru dætur Gunnars sem allir vita að er harður sjálfstæðismaður. Ef ég man rétt hefur allavega önnur dóttirin, líklega þó báðar, notið virkilega góðs af því að vera afkomandi fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs. Dóttirin og tengdasonur fengu fleiri milljónir fyrir að vinna allskonar verk fyrir bæjarfélagið, að sjálfsögðu án útboða og þess háttar vesens sem kostar bara vandræði, ef ég man þetta rétt.
Fyrir einhverja hendingu, hugsanlega til að "refsa" sjálfstæðisflokknum, tóku þau sig öll til og skráðu sig í framsókn eins og áður sagði.
Ómar Stefánsson framsóknarmaður í Kópavogi, sem ég þekki ekki neitt, en veit að hann hefur þann löst að vera framsóknarmaður, benti á þessa staðreynd og nú hafa dætur Gunnars og tengdasynir kært Ómar fyrir brot á persónuverndarlögum og gegn ákvæði hegningarlaga.

Ég hef í sjálfu sér enga hugmynd um hvort Ómar verði dæmdur fyrir þennan upplýsinga"leka" sinn. Það kæmi mér þó lítið á óvart ef svo yrði. Staðreyndi er nefnilega sú að á Íslandi þá skiptir sannleikurinn litlu eða engu máli.

Eflaust eru einhverjar gildar skýringar á því af hverju fjölskylda Gunnars ákveður að skrá sig í framsóknarflokkinn. Það er í sjálfu sér ekkert sjálfgefið að dóttir sjálfstæðismanns skuli styðja sjálfstæðisflokkinn sbr. Valgerður Bjarnadóttir dóttir Bjarna Ben. Þá er þetta heldur ekki brot á neinum lögum. Sú staðreynd að þau skuli taka þetta svona óstinnt upp, að Ómar hafi upplýst um þessar skráningar, þykir mér nokkuð merkileg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli