11 febrúar 2010

Lögreglan pöntuð?

Samkvæmt Pressunni fór fram fíkniefnaleit í Tækniskólanum nú í morgun. Nú velti ég því fyrir mér hvort það sé eðlilegt að hægt sé að panta lögregluna til slíkra verka? Það má í sjálfu sér færa þokkalega málefnaleg rök fyrir því, þ.e. forvarnir. Á hinn bóginn hlýtur maður að spyrja sig hvort það sé eðlilegt að borgarar geti pantað lögregluna í "reglubundið eftirlit" ? 
Það er eitt að tilkynna um eitthvað grunsamlegt, sem leiðir hugsanlega til þess að lögreglan aðhefst eitthvað. Annað er að fá lögregluna á staðinn, til að leita af sér einhvern hugsanlegan grun. 

Ég veit það fyrir víst að slík "pöntun" einskorðast ekki við lögregluna. Ég upplifði það sjálfur árið 2000 að lenda óvart innan um hóp sem var stöðvaður af tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins. 
Það var þannig að ég var að koma heim frá Manchester borg, þar sem ég hafði horft á mína menn í Man. Utd. taka við bikarnum fagra fyrir enn einn sigurinn í deildinni. Sama dag og farið var heim, hafði ég skellt mér í bæinn og keypt mér föt. Og í stað þess að vera í United búningi með trefil um hálsinn, var ég því dressaður í nýjustu H&M tískunni eða eitthvað álíka. Á sama tíma og við lendum í Keflavík lenti þar hópur ungra námsmanna úr einhverjum sveitaskóla, sem var að koma úr 10. bekkjar skólaferðalagi. Krakkarnir komu fljúgandi frá Kaupmannahöfn en höfðu verið á faraldsfæti um löndin í kring, m.a. Þýskaland, Pólland og Tékkland. Krakkahópurinn blandaðist því að einhverju leyti fótboltabullunum og gengu hóparnir því blandaðir í gegnum hlið tollgæslunnar. Þar stóðu menn sveittir á efri vörinni við að velja úr alla unglingana sem ekki voru í fylgd fullorðinna. Fjögurra ára forskot mitt á þessa krakka dugði skammt því lenti ég í þessu "úrtaki" tollsins. Eftir stutta stund baka til áttaði ég mig á því allir krakkarnir þarna inni þekktust og höfðu greinilega verið að ferðast saman. Ég átti engan veginn heima í þessum hópi. Ég talaði við einhverja tollara-konu þarna og reyndi að benda henni á að ég væri ekki í 10.bekk og væri alls ekki að ferðast með þessum krökkum. Ég væri að koma frá Englandi og væri að missa af farinu mínu til Reykjavíkur. Hún lét sér fátt um finnast og hlustaði ekki á mig. 

Einn krakki var tekinn til yfirheyrslu í einu og eftir c.a. 1,5 klukkutíma þá var röðin komin að mér. Farið var með mig í eitthvað yfirheyrsluherbergi þar sem tveir valdamiklir (þeim fannst það allavega) menn tóku á móti mér og hófu yfirheyrsluna. Þegar ég hafði komið þeim í skilning um að ég væri fyrir löngu búinn með 10.bekk, og væri alls ekki að ferðast með þessum hópi, urðu þeir hálf hissa á því að ég skyldi ekki hafa sagt það fyrr! 
En fyrst ég var á annað borð kominn þarna þá gátu þeir alveg eins kíkt í töskuna mína. Þar fundu þeir tvær 33cl. bjórdósir, sem hafði ekki tímt að henda þegar ég pakkaði niður, enda fátækur námsmaður. Í ljósi þess að ég var einungis 19 ára, átta mánaða og þriggja daga gamall, þá hafði ég ekki aldur til að flytja inn áfengi. Mér bauðst að gera einhvers konar dómssátt þar sem málið yrði látið niður falla en áfengið gert upptækt. Gekk ég að því. Því næst beið ég í klukkutíma eftir næstu rútu sem flutti mig á Hótel Loftleiði. Þaðan tók ég leigubíl heim og gekk inn um dyrnar klukkan rúmlega eitt um nóttina. Þetta kvöld hafði ég ætlaði til stærðfræði lærdóms, enda að fara í slíkt próf kl. 9 morguninn eftir. Það er ekki tollgæslunni að þakka að ég skyldi ná þessu prófi ! 

Krakkarnir töluðu um það að skólastjórinn í skólanum þeirra væri fáviti og að hann hefði víst eitthvað talað um að slík leit yrði gerð, því hann grunaði þau öll um að neyta fíkniefna í ferðinni. Ég hef því enga ástæðu til annars en að halda að þessi fávita skólastjóri hafi hreinlega pantað "tékk" hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli. Auk þess sem mér fannst þetta mjög skringilegt ef um væri að ræða eitthvað fíkniefnaeftirlit, því við vorum þarna c.a. 20 krakkar í einum hnapp, allar töskurnar í hrúgu og ein kona sem stóð yfir okkur. Ég fór eftirlitslaus á salernið þar sem ég hefði að öllum líkindum skilað af mér öllum fíkniefnum, ef ég hefði á annað borð verið með slík efni á mér. 

1 ummæli:

  1. Þú fórst s.s. ekki í stjörnu-leit?

    Ég heyrði góðann brandara um Kalla Bjarna (idol) í gær... þar sem hann var víst tekinn með dóp á keflavíkurflugvelli... man því miður ekki brandarann, en þar var verið að fíblast með stjörnuleit og "að flytja eigið efni"

    SvaraEyða