13 apríl 2010

Neytendur

Eftir að hafa lesið þessa bloggfærslu hjá Kára Harðarsyni varð ég hreinlega að bæta við nokkrum línum. 


Ég hef lesið bloggið hans Kára í nokkur ár. Þekki hann ekkert og hef aldrei talað við hann. Hann er mjög skemmtilegur bloggari og hittir svo oft naglann á höfuðið.
Í færslunni kemur hann inn á hvað við erum á miklum villigötum með ýmis málefni, hvernig hugsunarháttur fólksins er.Þessa skoðun hef ég lengi haft. Hugsunarhátturinn hér á Íslandi getur verið alveg ótrúlegur. Sem dæmi nefni ég neytendamálin. Neytendur á Íslandi virðast láta bjóða sér hvað sem er. Eflaust er ekki hægt að kenna neytendum eingöngu um því fólk virðist vera orðið ónæmt fyrir því að láta svína á sér. Mín skoðun er sú, og hefur verið lengi, að vandamálið liggi hjá stjórnvöldum. Lengst af hélt ég því fram að þetta vandamál ætti sér rót í Sjálfstæðisflokknum, þar sem sá flokkur hefur töluvert meiri áhuga á að þjónkast þeim sem selja neytendum þjónustu og vöru, en neytendunum sjálfum. Það hefur enn ekki sýnt sig að hinir flokkarnir hafi einhverja skárri sýn á þessi málefni. Kannski vinstri flokkarnir hafi meiri áhuga á neytendum en sá áhugi speglast líklega aðallega í áhuganum á að stýra neytendum á "réttu" vörurnar.


Verðlag á Íslandi er gjarnan alveg svínslegt. Ef um innflutta vöru er að ræða eru svörin gjarnan þau að það kosti svo mikið að flytja vöruna til Íslands. Ef við tökum dæmi af raftækjum sem eru framleidd í Asíu, þá eru þau flutt með skipi til Evrópu. Rotterdam í Hollandi er vinsæl höfn til að losa vörurnar í land þaðan sem þær eru fluttar um Evrópu með flutningabílum. Hluti af þeim fer um borð í annað skip sem siglir til Íslands. Er virkilega svona margfalt ódýrara að keyra vörurnar um Evrópu frekar en að sigla með þær til Íslands? 
Ef ég panta mér raftæki frá Bandaríkjunum, sem hafa þá þegar verið flutt frá Asíu í e-a verslun þar, og læt senda þau til Íslands þá borga ég í 99% tilfella minna en ef ég versla þessa sömu vöru út í búð. Einhverjum kann að finnast það eðlilegt, þrátt fyrir að inn í þessu verði sé álagning verslunarinnar úti, flutningsgjöld til Bandaríkjanna frá Asíu og frá Bandaríkjunum til Íslands, Íslenskir skattar og tollar ásamt sköttum og tollum í Bandaríkjunum. 
Vel má vera að það sé ekkert óeðlilegt við það en það sem er óeðlilegt er að munurinn er oft á tíðum alveg lygileg mikill, jafnvel tugir prósenta, bara með því að losna við álagningu íslensku verslunarinnar. 


Nú myndi sannur sjálfstæðismaður benda á að stjórnvöld ættu ekkert að skipta sér af þessum hlutum og það væri bara argasti sósíalismi ef svo væri. Það er í sjálfu sér alveg rétt en á hinn bóginn getur það ekki verið mikill kapítalismi að þjóðin búi við svona mikla "aftanítöku", sérstaklega í ljósi þeirra tolla og skatta sem hið opinbera smyr á innflutning.
Þetta er eitt dæmi af svo mörgum dæmum sem er hægt að taka. Þetta er orðin heldur löng færsla í bili þannig að ég læt þetta duga. Mun örugglega tjá mig meira um þetta síðar. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli