09 maí 2010

Gæsluvarðhald og áróðursmaskínan

Nú eru menn mættir á ritvöllinn og farnir að tala niður störf sérstaks saksóknara. Þetta er reyndar ekki fyrsta áróðursbylgjan sem gengur yfir saksóknarann og líklega ekki sú síðasta.
Menn eins og Hannes Gissurarson og Ólafur Arnarson fara mikinn. Þeir gera báðir mikið úr meintum orðum Steingríms Joð. um að "sefa reiði almennings". Nú hefur Steingrímur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að þetta hafi ekki verið hans orð. Hannes hefur enn ekki brugðist við því (og mun ekki gera spái ég - hann mun líklega halda áfram að ganga út frá því að þetta séu orð Steingríms). Ólafur Arnars bregst við og skrifar eftirfarandi
Þó að Steingrímur reyni nú að kenna blaðamönnum um þau ummæli, sem höfð voru eftir honum, getur hann ekki hlaupist undan því, að hann lýsti ánægju sinni með handtökurnar og von sinni um að þær sefuðu reiði fólks. 
Þannig er það. Steingrímur sagði þetta bara samt! Svona er pólitísk umræða á Íslandi mjög gjarnan. Það skal enginn halda annað en að þessi ummæli verði eignuð Steingrími um ókomna tíð.

Nú veit ég í sjálfu sér ekkert um þennan gæsluvarðhaldsdóm yfir Hreiðari, annað en að héraðsdómur hefur fallist á slíkt úrræði. Hæstiréttur tekur væntanlega afstöðu á morgun.
Lausleg athugun sýnir að Hæstiréttur hefur í yfir 30 skipti fallist á gæsluvarðhald yfir sakborningum á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Ég minnist þess ekki að hafa séð neinn kvarta yfir því. Ég minnist þess ekki að hafa séð neinn efast um þá úrskurði. Ég minnist þess ekki að hafa séð neinn draga hlutleysi dómstólana í efa í sambandi við þá úrskurði.

Nú gæti einhver bent á að hrunið hafi átt sér stað fyrir nærri tveimur árum síðan og því skjóti það skökku við að setja menn í gæsluvarðhald núna. Eða þá að gæsluvarðhaldsúrskurðir Hæstaréttar hafi í öllum tilfellum snúist að málefnum líðandi stundar, þ.e. að þar sé verið að úrskurða menn í varðhald í beinu framhaldi af meintum brotum. Vissulega er það rétt. Á hinn bóginn þá má benda á að sérstakur saksóknari hefur upplýsingar sem almenningur hefur ekki. Það er ekkert sem segir að krafan um gæsluvarðhald sé byggð á brotum sem áttu sér stað árið 2008. Frekar má ætla, m.v. ákvæði 95.gr. laga nr. 88/2008 og dómaframkvæmd er varðar gæsluvarðhaldsúrskurði, að um sé að ræða brot sem í það minnsta eiga sér enn þá stað, burt séð frá því hvenær þau hófst, eða að minnsta kosti að brotin séu þess eðlis að sakborningar geti unnið gegn rannsókn málsins, gangi þeir lausir. 

Hæstiréttur úrskurðar á morgun. Þá fæst staðfest hvort Hreiðar þurfi að dúsa í varðhaldi næstu daga. Þá fáum við líka að sjá á grundvelli hvaða málsgreinar gæsluvarðhaldsins er krafist. það ætti að gefa einhverjar vísbendingar.

Að lokum þá ætla ég að leyfa mér að halda því fram, alveg út í bláin án þess að hafa nokkur rök fyrir mér í því, að þessari gæsluvarðhaldsvist Hreiðars Más sé beitt á vægasta hátt sem unnt er. Ég drega það í efa að maðurinn sé í einangrun, að hann fái ekkert að lesa né að vita hvað tímanum líður osfrv. Ég verð bara að viðurkenna að mér þykir það mjög ólíklegt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli