06 október 2010

Ritstjórinn, leiðarinn og peningarnir

Ritstjóri Fréttablaðsins, Ólafur Þ. Stephensen, skrifaði leiðara undir fyrirsögninni "Peningarnir eru ekki til" í blaðinu þann 4. okt. Þar færir hann ýmis rök að því að engin leið sé að ná árangri í ríkisfjármálunum án þess að skera niður útgjöld til heilbrigðismála, velferðabóta og menntamála, þar sem um sé að ræða langtum stærstu útgjaldaliði hins opinbera. 
Ég hrífst oft af skrifum Ólafs og er oft sammála honum. Nú er ég ósammála. Peningarnir eru ekki til, við erum sammála þar. Ég er því ósammála að það sé:
...orðin útjöskuð klisja að leggja til að skorið verði niður í utanríkisþjónustunni...
eins og Ólafur skrifar. Í mínum huga er það ekki nokkur einasta klisja. Okkur ber ekki einungis að skera niður í utanríkisþjónustunni heldur ber okkur að gjörbylta þessum ramma sem utanríkisþjónustan er skorðuð í. 
Það algjör miðaldar hugsunarháttur að halda að fínt sendiráð á fínum stað með einkabílstjóra í fínni borg erlendis sé nauðsyn. Árið er 2010 og samgöngur og samskiptamöguleikar hafa breyst alveg gríðarlega.

Nú er klukkan rúmlega miðnætti og miðvikudagurinn 6. október hafinn.Með lauslegri athugun á Dohop.is sé ég að ég get flogið af stað í fyrramáli  og komið til Sao Paulo í Brasilíu annað kvöld. Ég yrði reyndar ekki kominn til Sydney fyrr en snemma á fimmtudag!
Að auki þá get ég talað við fólk nánast hvar sem er í heiminum í gegnum síma, fjarfundarbúnað, tölvupóst og svona mætti lengi telja. 


Þessi umræða um utanríkisþjónustuna minnir mig gjarnan á fyrirkomulagið á bensínstöðvum fyrir fáum árum. Þá þótti ekki hægt annað en að manna litla bensínafgreiðslu á Húsavík með tveimur afgreiðslumönnum. Annar fór út og dældi eldsneyti, hinn sat inni og afgreiddi. Í dag dælir fólk sjálft á farartækið og velur á milli þess að greiða við sjálfsafgreiðslumaskínu eða að greiða inni hjá afgreiðslufólkinu, afgreiðslufólkinu sem sinnir hefðbundinni sjoppu-afgreiðslu. 
Án þess að gera lítið úr þessum störfum né halda því fram að þetta sé fullkomið kerfi eins og það er í dag, þá hljóta allir að sjá hversu mikið hagkvæmara þetta fyrirkomulag er (þrátt fyrir að það sjáist fá merki um það í álagningu á eldsneyti, en það er annað mál). 
Að mínu mati gildir það nákvæmlega sama um utanríkisþjónustuna. Hana þarf að stokka algjörlega upp og koma inn á nýja öld. Við ættum ekki að skýla okkur á bakvið það að "öll hin löndin" séu með svona líka. Hin löndin hafa flest lítil þorp sem eru álíka fjölmenn og Ísland.


Sendiráð Íslands og Varnamálastofa fá 3.564 milljónir skv. fjárlögum 2011. Það eru allt of háar fjárhæðir þegar peningarnir eru ekki til.


Grein Ólafs 


Listi yfir sendiráð Íslands

1 ummæli:

  1. Við lauslega talningu á heimasíðu Utanríkisráðuneytis eru 145 manns á launaskrá ERLENDIS og 150 manns á launaskrá innanlands hjá þessu apperati! Ég ber þetta of saman við Pittsburgh, borg í Bandaríkjunum sem telur um 300.000 manns. Þeir hafa hvorki seðlabanka né utanríkisþjónustu! Leggjum af þetta drasl allt saman. Bara með því að selja sendiráðsbygginguna í Tokyo og loka þar er hægt að spara fyrir niðurskurðinum í heilbrigðiskerfinu árið 2011.
    Kveðja Friðrik Sig.

    SvaraEyða