09 nóvember 2010

Breyta hverju?

Eins og ég skrifaði hér í fyrri pósti, þá tel ég að það hafi ekki verið stjórnarskráin sem klikkaði í aðdraganda hrunsins. Þ.e. þá tel ég að breytt og bætt stjórnarskrá hefði að öllum líkindum ekki komið í veg fyrir hrunið sem varð. Ég tel að það sé mikið dýpra á þessu hjá þjóðinni og býsna margt sem þarf að bæta.

Stjórnsýslan á Íslandi er rotin að innan. Þá er ég ekki að segja að þar sé slæmt fólk, síður en svo. Heldur er það uppbyggingin og fyrirkomulagið sem hrjáir okkur. Það er ekkert launungamál að embættismenn á Íslandi eru upp til hópa ráðnir fyrir klíkuskap og kunningjatengsl. Ég var einn þeirra sem vonaðist eftir breytingum á þessu þegar vinstri flokkarnir tóku við. Það varð heldur betur engin breyting. Síður en svo. Núverandi ríkisstjórn hefur náð að ráða alveg ótrúlega marga einstaklinga án þess að auglýsa stöður, því um tímabundið starf er að ræða. Svo má gera ráð fyrir því að eftir 6 mánaða starfstíma verði sömu einstaklingar fastráðnir án auglýsingar. Þarna er glórulaus glufa í kerfinu. 
Þetta er í sjálfu sér ekki eitthvað sem stjórnarskráin getur tæklað á beinan hátt. Ég trúi hins vegar og vona, að með því að gera persónukjör að valmöguleika, megi draga úr áhrifum þessa fjórflokkakerfis sem nú er við lýði. Að með því að velja einstaklinga en ekki flokka megi draga úr þessari spillingu. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli