23 nóvember 2010

Fyrir þá sem vilja frekar lesa en hlusta

Fyrir þá sem vilja frekar lesa hvað ég sagði í viðtalinu á Rás 1 en að hlusta á viðtalið þá kemur hérna textinn af því sem ég sagði svona nokkurn veginn.


Þarf að breyta stjórnarskrá lýðveldisins núna?
Þessari spurningu vil ég eiginlega svara bæði játandi og neitandi.

Nei í þeim skilningi að í samhengi við hrunið á Íslandi, þá tel ég að orsök þess sé ekki að finna í stjórnarskránni heldur að mestu leyti hjá fólkinu. Því tel ég að þrátt fyrir að ný eða uppfærð stjórnarskrá hefði verið til staðar þá hefði hrunið átt sér stað í sömu eða svipaðri mynd.

Já segi ég hins vegar í því samhengi að staðið hefur til áratugum saman að breyta stjórnarskránni og taka hana til endurskoðunar. Henni hefur jú verið breytt nokkrum sinnum og uppfærð en ég tel að heildstæð endurskoðun á stjórnarskránni sé nauðsynleg og ég tel einnig að nú sé heppilegur tími til þess að endurskoða stjórnaskránna, þar sem þjóðin stendur á ákveðnum krossgötum

Hverju helst?
Til að byrja með þarf að fara í gegnum allar þær tillögur sem komu frá Þjóðfundinum og snerta stjórnarskránna og breytingar á henni. Á þeim fundi voru nærri þúsund landsmenn að velta þessum hlutrum  fyrir sér, hverju mætti breyta og hvað mætti bæta og því er nauðsynlegt að horfa til þeirrar vinnu í fyrsta lagi. Inn í þessum tillögum þjóðfundarins eru mörg helstu atriðin sem frambjóðendur til stjórnalagaþingsins leggja áherslu á.Ég persónulega myndi vilja skerpa á þrískiptingunni, útiloka að ráðherra sér jafnframt þingmaður. Ég myndi vilja breyta ákvæðum um forsetann á þá leið að þau séu  í samræmi við raunveruleg völd hans. Ég myndi vilja skerpa á ákvæði um synjunarvald forsetans, setja inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur ef tiltekinn fjöldi kjósenda krefst þess. Auðlindirnar í eigu þjóðarinnar tel ég mikilvægt atriði. Þetta ásamt fjölda annarra atriða sem ég tel þarf að fara í gegnum og skoða, til dæmis kaflann um mannréttindi.

Það er tvennt sem ég myndi vilja skoða sérstaklega með það í huga að færa inn í stjórnarskránna sé möguleiki á því. Annars vegar eru það ákvæði um umhverfi og náttúru og hins vegar ákvæði um neytendur. Við erum af mismundi kyni, aðhyllumst mismunandi trúarbrögð, erum misgóð til heilsunnar, rík eða fátæk og svona mætti lengi telja. Við tilheyrum því öll allskonar hópum innan samfélagsins, stórum sem smáum. Öll eigum við það sameiginlegt að vera neytendur. Við þurfum öll versla okkur klæði og fæði. Ég tel að staða neytenda á Íslandi sé slæm og að það þurfi að bregðast við því. Hvort að slíkt eigi heima í stjórnarskrá þori ég ekki að fullyrða. Ég tel það þó þess virði að kanna það. Slíkt ákvæði yrði framsækin nýjung í stjórnarskrá.

Hvað hitt atriðið varðar þá snýr það að umhverfinu og náttúrunni. Íbúum jarðar fjölgar mjög hratt. Plássið minnkar og ágangur á gæði jarðar eykst með hverjum deginum. Við endurskoðun á stjórnarskránni þarf að horfa langt inn í framtíðina og velta fyrir sér þessum grundvallarlögum með tilliti til umhverfisins eins og það verður eftir 50 ár eða 100 ár. Því hlýtur að vera eðlilegt að kanna hvort leggja skuli áherslu á þætti eins og náttúru og umhverfi.  

Af hverju gefur þú kost á þér?
Ég gef kost á mér til stjórnlagaþings því ég hef trú á því að ég hafi eitthvað fram að færa til þingsins. Þjóðfélagsumræða hefur verið eitt mitt helsta áhugamál frá blautu barnsbeini og hef ég lengi fylgst með af áhuga. Ég er því vel að mér í ýmsum málaflokkum.
Þá er ég heiðarlegur og sanngjarn, óháður öllum sérhagsmunahópum. Ef þú kýst mig hlustandi góður,  þá lofa ég þér því að þínu atkvæði er vel varið. Ég mun leggja mig fram við að bæta þjóðfélagið.  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli