09 nóvember 2010

Þingmaður um alla eilífð?

Í dag kveður stjórnarskráin ekki á um tiltekin hámarksfjölda kjörtímabila sem þingmenn mega sitja. Fræðilega er því ekkert til fyrirstöðu að einstaklingur sé þingmaður í 100 ár, sé hann nógu langlífur. Mér sýnist að metið sé upp undir 40 ára seta á Alþingi.

Ég tel að starf þingmanna sé á margan hátt ólíkt "venjulegum" störfum (ef svo má að orði komast). Starf þingmanns er í mínum huga háð ferskleika. Ég tel að þingmaður sem situr til dæmis sitt fjórða kjörtímabil sé í hættu á að verða samdauna, að starfa vélrænt.

Því velti ég fyrir mér þeirri hugmynd að takmarka þann tíma sem tiltekinn einstaklingur getur setið sem þingmaður! Hvernig það yrði útfært er í sjálfu sér ekki til umræðu hér heldur hvort hugmyndin sé góð og gild.

Einhver mun líklega segja að það sé kjósenda að velja hverjir sitji á Alþingi og hverjir ekki. Vissulega er það rétt. Á móti má benda á að á meðan fjórflokkakerfið er jafn ríkt og það er í dag, þá eru kjósendur ekki að kjósa einstaklinga heldur flokka.

Sem dæmi um hvernig þingmenn verða samdauna má nefna umræðuna fyrir skemmstu um landsdóm. Þar kom upp í pontu hver þingmaðurinn á fætur öðrum og ræddi um að landsdómur væru úr sér gengið fyrirbæri og ætti ekki heima á Íslandi árið 2010. Þessir sömu þingmenn sitja margir sitt annað, þriðja og fjórða kjörtímabil. Er einhver í heiminum í betri aðstöðu til að breyta lögum á Íslandi en þingmaður á Alþingi Íslendinga? Af hverju voru þessir sömu þingmenn ekki búnir að gera eitthvað í því að fella landsdóm úr lögum eða gera á honum nauðsynlegar breytingar? Jóhanna var jú búin að reyna en fékk ekki þann stuðning sem þurfti.

Önnur rök gegn þessari hugmynd snúa að reynslu þingmanna. Að hætt sé við því að með miklum breytingum á hópi þingmanna glatist nauðsynleg þekking og reynsla. Ég held að þetta muni ekki verða vandamál, því að hópur þingmanna mun alltaf vera á sínu öðru eða þriðja kjörtímabili (ef við gefum okkur að hámarkið sé þrjú tímabil) og hefur því fjögurra til átta ára reynslu. Eins starfa á annað hundrað manns við Alþingi, á hinum og þessum sviðum. Það fólk ætti að vera í stakk búið að leiðbeina nýjum þingmönnum.

Þá má einnig velta því fram hvort það sama ætti hugsanlega að gilda um forseta Íslands? (að því gefnu að embættið muni haldast óbreytt að flestu eða öllu öðru leyti).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli