10 nóvember 2010

Jafnræðisreglan - kynhneigð

Samtökin '78 sendu mér póst og spurðu mig þriggja spurninga er snéru að jafnrétti gagnvart hinsegin fólki. Að neðan má sjá spurningarnar þrjár og svör mín við þeim.

1) Hver eru viðhorf þín til hinsegin fólks (Hommar, Lesbíur, tvíkynhneigðir og transgender)?
Mín viðhorf til hinsegin fólks eru þau sömu og til ekki hinsegin fólks. Mig varðar ekkert um það hvort fólk hrífist að eigin kyni eða gagnstæðu.

2) Hvað munt þú gera ef sú hugmynd kemur upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni?
Hér er verið að vísa til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar (65.grein) um að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóti mannréttinda. Því næst eru talin upp atriði sem eiga ekki að hafa áhrif á þetta, til dæmis kynferði, kynþáttur og trúarbrögð, svo eitthvað sé nefnt. Mín skoðun er sú að þessi regla á að vera stutt, hnitmiðuð og almenn en ekki sértæk. Með öðrum orðum þá vil ég að reglan segi að allir eigi að njóta mannréttinda og vera jafnir fyrir lögum punktur. Ég tel að ekki sé ástæða til slíkra upptalninga á hinum og þessum hópum (minni og meirihluta) samfélagsins. Hugsanlega væri heppilegt að setja fyrirvara við regluna um að allir séu jafnir nema að málefnalegar ástæður liggi að baki, í ljósi þess að stundum er fólki mismunað af málefnalegum ástæðum, sbr. jákvæð mismunun til að leiðrétta kynjahlutföll. Svar mitt við spurningunni er því: Persónulega myndi ég ekki vilja að orðinu kynhneigð yrði bætt inn í stjórnarskránna heldur að öllum upptalningum yrði sleppt. Það eiga allir að vera jafnir gagnvart stjórnarskránni, mannréttindum og lögum. Því tel ég ekki svigrúm fyrir einhverja að vera jafnari en aðrir. 3) Ert þú jákvæð/ur í garð réttinda hinsegin fólks?
Það er mín skoðun að allir eigi að njóta sömu réttinda á Íslandi. Ég er því jákvæður gagnvart öllu jafnrétti, sama hvaða hópa það snertir. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli